Olympíumeistarar fá Toyotabíla

http://www.fib.is/myndir/Putin.jpg
Vladimir Putin

Vladimir Putin forseti Rússlands tók vel á móti 22 verðlaunahöfum sem sneru heim til Rússlands af vetrarólympíuleikunum í Torino á Ítalíu. Konunum afhenti hann lykla að nýjum Lexus jeppum en körlunum lykla að Land Cruiser jeppum. Þjálfarar verðlaunahafanna fengu ekki bíla heldur hver um sig peningaupphæð sem svarar til 25 þúsund dollara að því er fréttastofan Bloomberg greinir frá.

Sennilega er það ekki tilviljun að Putin valdi Toyota til að gefa íþróttafólkinu en ekki Lödur eða Rússajeppa, því að Toyota er búin að fjárfesta fyrir 144 milljónir dollara í nýrri bílaverksmiðju í Sánkti Pétursborg, sem einmitt er heimaborg Putins og þar var hann borgarstjóri áður en hann varð forseti Rússlands alls.

Putin er víst mikill íþróttaáhugamaður og þótt hann afhenti bíllyklana í eigin nafni þá viðurkenndi hann aðspurður að bæði rússneska ólympíunefndin og ýmsir viðskiptamenn og fyrirtæki hefðu látið fé af hendi rakna af fúsum og frjálsum vilja. Hinir nýbökuðu bíleigendur öfluðu Rússlandi átta gullverðlauna, sex silfurverðlauna og átta bronsverðlauna á nýlega afstöðnum vetrarólympíuleikum í Torino.