Opel Ampera er bíll ársins 2012 í Evrópu
Bíll ársins í Evrópu var útnefndur við opnun bílasýningarinnar í Genf sl. mánudag. Sjö bílar voru í úrslitum í keppninni um þennan mikilvæga titil sem veittur var í 49. sinn. Talning atkvæða þeirra 59 bílablaðamanna frá 23 löndum sem velja bíl ársins í Evrópu, fór fram fyrir opnum tjöldum í Genf á mánudag. Opel Ampera raf/rafstöðvarbíllinn reyndist hljóta flest stig eða 330 af 1475.
Næstur Opel Ampera varð VW Up sem hlaut 281 stig og þriðji varð Ford Focus með 256 stig. Þar á eftir komu svo Range Rover Evoque, Fiat Panda, Citroën DS5 og Toyota Yaris.
Í 59 manna hópnum sem útnefnir bíl ársins í Evrópu er einn danskur blaðamaður. Hann er frá Motor, félagsriti FDM, hins danska systurfélags FÍB og heitir Søren W. Rasmussen. Honum kemur útnefningin ekki á óvart. Opel Ampera sé einn merkilegasti rafmagnsbíllinn hingað til. Í honum sameinist umhverfismildi rafbílsins og langdrægi bensínknúna bílsins. Opel Ampera/Chevvrolet Volt (sami bíll undir sínu hvoru nafninu) eigi eftir að skipa háan sess í bílasögunni sem fyrsti nothæfi valkosturinn við bensín- og dísilbíla í rúmlega hundrað ára sögu bílsins.