Opel Astra er bíll ársins í Evrópu 2016
Rétt í þessu var það tilkynnt við opnun bílasýningarinnar í Genf í Sviss að Opel Astra hefði verið valinn bíll ársins í Evrópu af 58 manna hópi evrópskra bílablaðamanna frá 22 ríkjum. Bein útsending var á Netinu frá athöfninni og það var forsmaður valhópsins, sænski blaðamaðurinn Hakan Matson frá Dagens Industri, sem tilkynnti um valið. Volvo XC-90 varð í öðru sæti.
Forstjóri Opel; Karl-Thomas Neumann veitti verðlaunagripnum fyrir bíl ársins 2016 viðtöku og sagði að hinn nýi Opel Astra markaði upphaf nýs tímabils hjá Opel. Mikil vinna og hugvit hefði verið lagt í þennan bíl til að gera hann góðan akstursbíl, sterkan og léttbyggðan og vel búinn. Þessi viðurkenning nú sýndi að menn væru komnir á rétta leið eftir mörg ár erfiðleika og óvissu. Viðtökur almennings sýndu það einnig því að þegar væri búið að selja 130 þúsund eintök af bílnum enda þótt að hann sé nýkominn á markað.