Opel Astra til Bandaríkjanna
Opel/Saturn Astra
Opel hefur aldrei haft fótfestu á bandarískum bílamarkaði heldur hefur alltaf verið hreinn Evrópubíll. En nú er að verða breyting á í fyrsta skipti því að á síðari hluta ársins hefst sala á Opel Astra í Bandaríkjunum. Bílarnir verða byggðir í verksmiðju Opel í Antwerpen í Belgíu og seldir í gegn um sölukerfi GM-Saturn undir nafninu Saturn Astra.
Það hefur lengi þótt nokkurt undrunarefni hversu seint stóru bandarísku bílaframleiðendurnir, ekki síst GM, hafa brugðist við síhækkandi eldsneytisverði og látið hjá líða að demba inn á bandaríska markaðinn miklu sparneytnari bílum en þeim stóru bensínhákum sem bandaríski markaðurinn hefur verið að hafna í sívaxandi mæli – bílum sem þeir framleiða hvort eð er. Á meðan bandarísku risarnir hafa nánast setið með hendur í skauti hafa japanskir bílaframleiðendur, ekki síst Toyota jafnt og þétt aukið sinn hlut í Bandaríkjunum meðan óseldir bensíngleyparnir hlaðast upp.
Svo virðist sem nýjar kynslóðir Opel séu umtalsvert öruggari bílar í rekstri en eldri gerðirnar hafa verið um alllangt skeið. Gæðaátakið hjá Opel hefur fljótt skilað sér í bættu trausti bílakaupenda og betri sölu. Síðan nýjasta kynslóð Opel Astra kom fyrst fram í marsmánuði 2004 hafa 1,2 milljónir eintaka af Astra selst í Evrópu. Hin nýja kynslóð smábílsins Corsa sem fram kom sl. haust hefur einnig farið mjög vel af stað.