Opel Astra til Bretlands

Eftir að stjórn GM í Evrópu ákvað fyrir helgina að hin nýja kynslóð Opel Astra verði framleidd í Vauxhall verksmiðjunni í Ellesmere Port í Bretlandi er  vart hægt að segja að framtíð starfseminnar í Russelsheim í Þýskalandi sé björt. Eini bíllinn sem þá verður enn byggður í Russelsheim er Opel Insignia en hversu lengi það verður er ekki ljóst. Þar með fölnar enn sá ljómi sem eitt sinn stafaði frá þessum gömlu höfuðstöðvum Opel sem nú má segja að séu komnar á nokkurskonar dauðalista.

Opel í Russelsheim í Þýskalandi og Vauxhall í Bretlandi eru eitt og sama GM-fyrirtækið og þær gerðir sem hingað til hafa verið framleiddar á báðum stöðunum hafa verið algerlega eins að því einu undanteknu að Vauxhall útgáfurnar hafa verið með stýrið hægra megin. Fyrir verksmiðjuna í Ellesmere Port þýðir þetta það að bæta þarf við 700 starfsmönnum þegar Astra-framleiðslan hefst þar árið 2015.

GM-verksmiðjan í Ellesmere Port í Bretlandi hefur lengi átt sér daprar framtíðarvonir og í raun verið á dauðalistanum fyrrnefnda. Lengi hefur staðið til að leggja hana niður, frekar en verksmiðjuna í Russelsheim. Það hefur hins vegar snúist algerlega við nú.

Áætluð ársframleiðsla á nýja Opel/Vauxhall Astra bílnum verður að lágmarki 160 þúsund bílar. Auk 700 nýrra starfa sem verða til við þessar breytingar fjölgar einnig öðrum störfum í Bretlandi vegna þeirra, ekki síst hjá framleiðendum íhluta og ýmsum afleiddum störfum um ca þrjú þúsund manns.

Sú Astra sem nú er í framleiðslu er sett saman á þremur stöðum; Ellesmere Port í Bretlandi, Bochum og Russelsheim í Þýskalandi.