Opel Corsa er bíl ársins 2007 í Danmörku
Opel Corsa árgerð 2007
Nú fyrir stundu var hinn nýi og gegnendurnýjaði Opel Corsa valinn bíll ársins í Danmörku. Það sem réði úrslitum í vali dómnefndar danskra bílablaðamanna var mikill og góður öryggisbúnaður og hagstætt verð.
Í tilkynningu dómnefndarinnar segir að öryggisþættir bílsins séu í toppi en verðið í botni. Í sjálfu bílaskattalandinu kostar ódýrasta gerð Opel Corsa af árgerð 2007 rétt rúmar 1,4 m. ísl. en þó er innifalið í því verði sex loftpúðar, ESP stöðugleikakerfi auk þess sem bíllinn fékk fimm stjörnur í árekstursprófi EuroNCAP alveg nýlega.
Það er klúbbur bílablaðamanna í Danmörku sem þar í landi velur bíl ársins. Í honum eru 29 bílablaðamenn frá flestum þeim fjölmiðlum landsins sem fjalla um bíla og málefni þeim tengd. Í lokavalinu voru meðal annars margar aðrar athyglisverðar nýjungar. Meðal þeirra má nefna Skoda Roomster sem Danirnir töldu yfirburðabíl út frá þörfum barnafjölskyldna, en verðið er hins vegar hærra en á Opelnum eða um 2,2 milljónir.
En Skoda Roomster varð í öðru sætinu, Citroen C4 Picasso í því þriðja og Ford S-Max og Toyota Yaris deildu því fjórða.
Þessa dagana er klúbbur íslenskra bílablaðamanna að vinna að því að velja bíl ársins 2007 á Íslandi og verður valið tilkynnt innan tíðar.