Opel gefst upp í Kína

General Motors hefur ákveðið að draga Opel vörumerkið af markaði í Kína þar sem það hefur verið síðan árið 1993 með harla rýrum árangri. Frá og með næsta ári verða Opelbílar ekki lengur í boði fyrir kínverska bílakaupendur heldur bara evrópska. Það sem með þessari breytingu sparast verður nýtt til að hanna og þróa nýjar Opel bílagerðir fyrir Evrópu.

Það verður að segjast að Opel hefur ekki höfðað til Kínverja og ljóst orðið að það muni ekki gerast nema þá kannski með gríðarlega kostnaðarsömu markaðsátaki og stórlega endurbættu dreifikerfi sem alls óvíst er að muni skila sér. Markaðshlutdeild Opel í Kína hefur lengstum verið svo lítil að sala á Opel bílum hefur verið undir einu prósenti af heildarsölu General Motors í Kína. Opel hefur því ekki gengið í augu Kínverja þótt General Motors hafi í það heila tekið vegnað þar ágætlega með önnur vörumerki sín, eins og t.d. Chevrolet en einkum þó Buick.

Árið 2013 tókst söluaðilum Opel í Kína, sem eru 22 talsins, að selja 4.365 bíla. Til samanburðar þá seldust fleiri Opel bílar í evrópska smáríkinu Danmörku, eða 6.700 stykki. Á þessu sama ári seldu kínversku Buick söluumboðin sem eru 650 talsins, 810.000 bíla.

Í fréttatilkynningu frá Opel segir forstjórinn; Karl-Thomas Neumann að taka hefði mátt ákvörðun um brotthvarf Opel frá Kína nokkru fyrr þar sem löngu hefði verið orðið ljóst að ekki sé skynsamlegt að halda áfram lengur. Ef freista ætti þess að auka veg Opel í Kína yrði að kosta til þess hundruðum milljóna evra. Í stað þess hafi verið ákveðið að hætta bara og verja 250 milljónum evra strax til að þróa nýjar gerðir Opelbíla sem byggðir verða í höfuðstöðvunum í Rüsselsheim skammt frá Frankfurt í Þýskalandi.

Brotthvarf Opel frá Kína er nýjasti liðurinn í framkvæmd markaðsáætlunar Mary Barra forstjóra, sem tók við fyrir sl. áramót. Markmiðið er að einfalda og straumlínulaga bílarisann. Ekki er langt síðan tilkynnt var um endurreisn Opel vörumerkisins í Evrópu og um leið voru Chevrolet bílarnir frá Kóreu dregnir út af Evrópumarkaðinum að undanskildu Rússlandi.

Kóreu-Chevrolet bílarnir sem þegar eru komnir til Evrópu eru nú víðast hvar á útsölu, en Opel á að leysa þá algerlega af hólmi innan örfárra ára. Næsta skrefið hjá GM verður svo að leggja niður Ástralíumerkið Holden.

Hér á Íslandi hefur Bílabúð Benna verið megin innflytjandi og söluaðili GM merkisins Chevrolet (áður Daewoo) frá Kóreu og náð ágætum árangri. Í kjölfar tilkynningarinnar frá GM um að þessir bílar yrðu ekki lengur í boði í Evrópu eftir 2016 varð það að ráði hér, að Bílabúð Benna yrði framvegis innflytjandi og megin þjónustuaðili Opel á Íslandi og tæki við merkinu af BL.