Opel snýr vörn í sókn
Síðasta föstudaginn í nýliðnum júni var opnaður nýr sýningar- og sölustaður fyrir Opel bíla á Íslandi. Gera má ráð fyrir því að opnunin sé hlekkur í nýrri landvinningaáætlun þessa aldna vörumerkis sem rekið hefur verið með tapi mörg undanfarin ár.
Gengi Opelbifreiða hér á landi hefur verið upp og niður síðustu árin og ekki ósvipaða sögu er að segja í öðrum Evrópuríkjum. Frá stríðslokum og mestallan síðari helming aldarinnar var Samband íslenskra samvinnufélaga umboðsaðili Opel og móðurmerkisins General Motors. Þegar SÍS, eða Sambandið hætti verslunarrekstri fluttist Opel ásamt öðrum GM vörumerkjum til Ingvars Helgasonar hf, sem nú heitir BL.
En nú vilja nýir stjórnendur Opel í Þýskalandi (og Vauxhall í Bretlandi) snúa vörn í sókn og hafa sett saman fjögurra ára áætlun um mikla endurskipulagningu og sparnað í rekstri, stórar fjárfestingar í nýjum bílagerðum, m.a. í nýjum smábíl – Opel Adam, lægra verð og stóraukinn útflutning til markaða utan Evrópu. Móðurfélagið, General Motors, hefur samþykkt áætlunina.
Sparnaður í rekstri er mikilvægur hluti þessarar áætlunar en honum á að ná m.a. með samvinnu við PSA (Peugeot/Citroen) um hönnun og þróun nýrra bíla og nýrrar tækni.
Á síðasta áratuginum var rekstur Opel í slæmu öngstræti og nánast á hausnum. Gæðamál voru í ólestri og bílarnir þóttu gamaldags og seldust illa. Þá var gert mikið gæðaátak auk þess sem framleiðslan var endurnýjuð að verulegu leyti. Afrakstur þessa átaks voru m.a. Opel Astra, Zafira, Insignia og rafbíllinn Ampera.
Endurnýjun framleiðslulínunnar og gæðaátakið tókst mjög vel, salan stórjókst, en dugði þó ekki að koma rekstrinum upp fyrir núllið. Enn vantar herslumuninn, sem vonast er til að náist með hinni nýju áætlun.