Opel sýnir tengiltvinnbíl í Frankfurt
Opel E-Flex.
GM sýnir tengiltvinnbílinn Opel E-Flex á bílasýningunni í Frankfurt sem opnuð verður blaðamönnum á morgun, þann 11. september - og almenningi tveimur dögum síðar. Vélbúnaðurinn í bílnum sem og undirvagn er að miklu leyti sömu og í rafbílnum Volt sem GM sýndi á Detroit bílasýningunni í fyrra.
Eins og í Volt er Opel E-Flex í raun rafbíll með litla „ljósavél.“ Stór rafmótor knýr bílinn áfram en ljósavélin er lítil og sparneytin dísilvél sem fer í gang og hleður inn á geymana þegar þeir tæmast. Vinnuhringur bílsins á rafmagninu einu er 100 km og hægt er að stinga bílnum í samband við heimilisstrauminn og þá hlaðast geymarnir. Þegar bæði rafgeymar og dísilolíugeymir bílsins eru fullhlaðnir kemst E-Flex samtals 770 kílómetra áður en hann kemst í þrot.
Rafgeymasamstæðan í E-Flex er með seríutengdum líþíum-jónarafhlöðum sem fullhlaðnar geyma 16 kílóWattstundir. Hleðslutími tómra rafgeyma er 6,5 klst. Rafmótorinn í bílnum er 120 kW að afli og vinnsla hans er 320 Newtonmetrar.