Opel Vectra slær í gegn í USA
Opel Vectra í Ameríkuútgáfu þar sem hann nefnist Saturn Aura.
Það hefur undrað margan bílamanninn hversu stóru bandarísku bílarisarnir GM, Ford og Chrysler hafa verið lengi að bregðast við vinsældum lítilla og meðalstórra japanskra bíla á eigin heimamarkaði. En lengi getur verið von á einum.
Við sögðum frá því hér á fréttavefnum nýlega að nú sé að hefjast sala á Opel Astra í Bandaríkjunum undir merkinu Saturn Astra. En Vectran var reyndar komin áður því að frá því um mitt síðasta ár hefur Opel Vectra, sem er aðeins stærri bíll en Astra, verið fáanlegur í Bandaríkjunum undir nafninu Saturn Aura. Sá bíll þykir reyndar svo merkilegar þar í landi að bandarískir bílablaðamenn hafa valið hann bíl ársins 2007 í Bandaríkjunum. Bíllinn er byggður hjá Opel í Þýskalandi sem er í eigu GM og eftir að búið er að setja á hann merki Saturn og setja í hann sex strokka vél er hann orðinn svona ansi hreint vel lukkaður bíll í Bandaríkjunum.
Þetta eru auðvitað góð tíðind fyrir General Motors sem átt hefur í erfiðleikum á heimavelli. En það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir bandaríska bílaiðnaðinn út af fyrir sig að fimm ára gömul bílhönnun frá Evrópu slær svona vel í gegn í Ameríku.