Opinn Cadillac aflagður

http://www.fib.is/myndir/CadillacXLR.jpg
Cadilac XLR aflagður um áramótin vegna dræmrar sölu.

Hætt verður að framleiða tveggja sæta lúxussportbílinn Cadillac XLR um næstu áramót. Ástæðan er dræm sala. Framleiðsla á bílnum hófst árið 2003 og gekk ágætlega framanaf en salan dróst saman um 28 prósent árið 2008 miðað við árið á undan og einungis 1250 bílar seldust það árið.

Cadillac XLR er ekki ódýr bíll og nú þegar kreppa er skollin á er hætt við að verðmiði upp á 87 þúsund dollara án skatta standi í ansi mörgum. En bíll kemur í bíls stað og í haust kemur á markað nýr Cacillac sem nefnist CTS Coupé. Sá er fjögurra sæta og miklu ódýrari en XLR. Ekkert hefur komið fram um það hvort CTS verði fáanlegur með niðurfellanlegum toppi.

http://www.fib.is/myndir/Cadillac-cts-coupe.jpg
CTS Coupe leysir XLR af hólmi. Hann er verulega ódýrari en XLR og þar að auki fjögurra sæta.