Opna útboð fyrir Fossvogsbrú og tengdar framkvæmdir
Vegagerðin hefur opnað útboð um gerð landfyllinga og sjóvarna vegna nýbyggingar brúar yfir Fossvog. Brúin tengir saman vesturhluta Kópavogs og Reykjavík með afgerandi hætti. Stytta ferðalengdir og stuðla að því að draga úr umferðarálagi á vegum.
Útboðið, sem er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu, markar formlega upphafið að framkvæmdum við byggingu Fossvogsbrúar, sem er ætluð Borgarlínuvögnum, strætisvögnum, gangandi og hjólandi vegfarendum, auk forgangsaksturs lögreglu, sjúkraflutninga og slökkviliðs.
Opið er fyrir útboð til tíunda desember. Verkið er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar og Kópavogsbæjar og á að vera að fullu lokið fyrsta nóvember 2026.