Öragnasíur í alla dísilbíla
Connie Hedegaard.
Reglur um leyfileg mörk öragna í útblæstri frá bifreiðum verða skerptar ef tillaga frá Connie Hedegaard umhverfisráðherra Danmerkur nær fram að ganga. Hún leggur til að öragnasíur verði skylda í öllum dísilbílum þegar nýi mengunarstaðallinn Euro 5 tekur gildi 2010. Danski umhverfisráðherrann lagði þetta til á fundi evrópskra umhverfisráðherra sl. þriðjudag.
Fundurinn var haldinn m.a. til að ræða hertar mengunarreglur fyrir alla fólks- og sendibíla. Hingað til hafa nefnilega aðrar og mildari reglur gilt fyrir jeppa og sendibíla í Evrópu en fyrir dísilknúna fólksbíla, stóra sem smáa. Hugmynd danska umhverfisráðherrans er sú að eitt skuli framvegis yfir alla ganga og öragnasíur verði skylda í dísilbílunum hvort sem þeir eru smábílar eða stórir jeppar miðað við þá dísilvélatækni sem nú er ráðandi.
Miðað við hinn núgildandi Euro 4 mengunarstaðal verður gríðarleg breyting með tilkomu Euro5. Öragnamengun verður 80-92 prósent minni þar sem viðmiðunarmörkin fyrir venjulegan meðalfólksbíl hvað varðar öragnamengun minnkar úr 25 milligrömmum á kílómetra í 5 milligrömm. Hvað varðar meðalstóra sendi- og vörubíla þá lækka þessi sömu viðmiðunarmörk úr 40 mg á km í 5 mg og fyrir stóra sendi- og vörubíla úr 60 mg í 5 mg á kílómetra.
Sömuleiðis verða kröfur um útblástur köfnunarefnisoxíða og vetniskolefna hertar til bæði bensín- og dísilbíla. Útblástur þessara efna á að minnka um 20-25 prósent ef marka má greinargerð danska umhverfisráðuneytisins.
Danski umhverfisráðherrann sagði á blaðamannafundi á þriðjudag um málið að vissulega væri Euro 5 mengunarstaðallinn hið besta mál en nú væri rétt að byrja á því að upplýsa bílaiðnaðinn um næsta skref sem væri Euro 6. –Þá vita hinir snjöllu bílasmiðir hvað bíður handan við hornið- sagði Connie Hedegaard. Það væri mikill misskilningur að halda að hertar reglur í þessu efni væru bílaiðnaðinum til bölvunar. Þvert á móti.