Orka náttúrunnar opnar hlöðu við Jökulsárlón
Orka náttúrunnar hefur í samstarfi við Vatnajökulsþjóðgarð opnað hlöðu fyrir rafbíla við Jökulsárlón. Starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs, þau Steinunn Hödd Harðardóttir og Sigurður Óskar Jónsson voru starfsfólki ON innan handar við að sækja fyrstu hleðsluna í vikunni.
Aðstandendur verkefnisins segja það mikils virði að geta opnað á þessum stað, í þessari fallegu náttúru svo fólk geti keyrt um á orku náttúrunnar og þannig stuðlað að orkuskiptum í samgöngum.
Næsta hlaða sem ON opnar er á Egilsstöðum og víða um land undirbýr ON enn frekari uppbyggingu.
Jökulsárlón er einn af fjölsóttari ferðamannastöðum landsins. Tvær stöðvar eru í hlöðunni, hraðhleðslustöð búin þrenns konar tengjum og hefðbundin hleðslustöð. ON hefur nú reist 21 hlöðu og þær verða orðnar um 50 talsins í lok næsta árs.