Orkuskipti í samgöngum
Verkefnisstjórn Grænu orkunnar skilaði í dag af sér skýrslu til iðnaðarráðherra um það hvernig best verði staðið að orkuskiptum í samgöngum. Myndin er af Sverri Viðari Haukssyni t.h. að afhenda Kristjáni Skarphéðinssyni ráðuneytisstjóra iðnaðarráðuneytisins skýrsluna en hann tók við henni í fjarveru ráðherra. Markmið stjórnvalda er það að árið 2020 komi 10% þeirrar orku sem notuð er í samgöngutækjum frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Til að það geti fram gengið þarf að gefa allvel í, því að í dag er hlutfall vistvænna ökutækja einungis 0,35%.
Í skýrslu Grænu orkunnar er m.a. sett fram tímasett aðgerðaáætlun um hvernig orkuskiptin skuli gerast. Núverandi skatta- og lagaumhverfi er greint og tillögur eru tíundaðar um þær breytingar sem virkað geta sem hvati til orkuskipta.
Fjallað er í skýrslunni um mikilvægi aukinnar samvinnu þeirra sem koma að þróunarverkefnum á þessu sviði og áhersla lögð á að hið opinbera sýni gott fordæmi, t.d. með því að setja fram stefnu um innkaup sem styður við orkuskipti. Jafnframt er skýrslan upplýsingabrunnur um endurnýjanlega orkugjafa, skuldbindingar Íslands á alþjóðavettvangi og stefnumörkun stjórnvalda á undangengnum árum.
Græna orkan bendir á ýmis ljón á veginum sem líkleg eru til að tefja fyrir orkuskiptunum. Það eru atriði eins og hátt verð á vistvænum ökutækjum, hæg endurnýjun bílaflotans, skortur á innviðum og óvissa um hvaða orkugjafi eða -gjafar verði að lokum ofan á. Lögð er áhersla á að stjórnvöld styðji vel við þróunina á fyrstu stigum orkuskipta m.a. með ívilnunum.
Í verkefnisstjórn Grænu orkunnar hafa setið fulltrúar fjármála-, iðnaðar-, umhverfis- og innanríkisráðuneytis ásamt fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samorku, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu, Bílgreinasambandsins og Félagi íslenskra bifreiðaeigenda.