Orkuskipti í samgöngum
Því er spáð að olíu- og bensínöldinni sem staðið hefur undanfarin 150 ár, taki senn að ljúka. Hvað tekur við sem meginorkugjafi samgangna er ekki fyllilega ljóst en skýrist væntanlega á næstu árum og áratugum. Ljóst virðist þó að enginn einn orkugjafi verði allsráðandi eins og verið hefur (bensín/dísilolía) heldur verði nokkrir valkostir í í boði, eins og jarðgas, metangas, metanól og etanól, rafmagn og vetni.
Í Bandaríkjunum sjást þess merki að bensínið verði ekki mikið lengur einasta bílaeldsneytið í boði og jarðgasið og jafnvel rafmagn á stöku stöðum er að byrja að sækja á. Eftirspurn eftir gasinu vex hratt og það verður fáanlegt á sífellt fleiri afgreiðslustöðum, enda er það bæði ódýrara en bensínið og bruni þess hreinni. General Motors Corp. bregst strax við þessu og leggur stóraukna áherslu á að framleiða bílvélar sem brenna jarðgasi, eða LNG gasi í stað bensíns og framleiðslu á gasbúnaði fyrir venjulega bensínbíla.
General Motors hefur sent frá sér frétt um þessi mál. Þar segir að nú sé unnið að hönnun og þróun gasvélar fyrir bíla, þeirrar fyrstu sem hugsuð er frá grunni sem gasvél. GM hefur tekið upp samvinnu við fjölda fyrirtækja og rannsóknastofnana sem vinna að gasvæðingu bíla þeirra á meðal kappaksturs- og sportbílabílasmið í Indianapolis, Marlon Kirby að nafni. Marlon þessi hefur byggt ofursportbíl sem einvörðungu keyrir á gasi. Bíllinn nefnist Maxximus LNG 2000 og hraðaksturs- og þolpróf eru að hefjast á honum á Indianapolis kappaklstiursbrautinni og þar verður honum ekið á allt að 320 km hraða
Enginn hörgull er talinn vera á jarðgasi í Bandaríkjunum. Jarðfræðingar þar segja að miðað við núverandi bílanotkun gætu þær birgðir sem nú vitað er um í jarðlögunum dugað til að knýja bílaflotann áfram með sama krafti og nú, næstu 100 árin í það minnsta. Jarðgas er eins og sakir standa fyrst og fremst nýtt til að knýja raforkuframleiðsluvélar. Einungis 120 þúsund gasknúnir bílar eru í notkun í Bandaríkjunum og afgreiðslustaðir fyrir gasið eru einungis 900. Gasið er um helmingi ódýrara en bensínið og þótt bæði gasbílum og gassölustöðvum fjölgi verulega er ekki gert ráð fyrir því að verðið hækki umtalsvert.