Öruggustu bílarnir
Sænska tryggingafélagið Folksam hefur í fimmtánda sinn lista yfir öruggusta bílana. Niðurstöðurnar eru byggðar á raunverulegum umferðarslysum og rannsóknum á þeim. Einungis 14 prósent bílanna reyndust að mati Folksam vera bæði öruggir og umhverfismildir.
Folksam vill að bílar séu bæði öruggir og umhverfismildir. |
Anders Kullgren sem stjórnar slysarannsóknum hjá Folksam segir við sænska fjölmiðla að öryggisþættir bíla séu meðal þeirra þátta sem mestu skipta um það að fækka látnum og alvarlega slösuðum í umferðinni. Af þeim sökum sé mikilvægt að flokka bíla og birta síðan lista yfir öruggustu bílana. En jafnframt megi alls ekki slaka á kröfum um að draga sem mest úr skaðlegum áhrifum bíla á umhverfið. Þessvegna sé nauðsynlegt að taka líka tillit til eyðslu og þar með umhverfismildi bíla.
Folksam leggur mikið upp úr öryggiskerfum í bíla og eitt þeirra al nauðsynlegustu að mati Folksam eru kerfi sem hemla bílnum sjálfvirkt þegar hindrun er framundan. Ef slík kerfi væru til staðar í öllum bílum (sem er fjarlæg draumsýn ennþá) myndu þau fækka látnum og alvarlega slösuðum í umferðinni um 20 prósent að mati slysarannsóknamanna.
Meðal öruggustu bílanna á lista Folksam eru tveir bílar sem hafa þennan búnað sem staðalbúnað. Þeir eru Toyota Prius Executive og Volvo V70 Bi-Fuel. En sjálfvirkur hemlunarbúnaður er auðvitað fáanlegur í marga aðra bíla sem aukabúnaður. Flestir þeirra er þó allt of eyðslufrekir til að eiga möguleika á að komast á lista Folksam.
Til að auðvelda neytendum að velja sér örugga bíla óháð stærð hefur Folksam sett saman lista yfir bíla í átta stærðarflokkum. Listana er að finna hér. Með því að smella á flipana undir myndinni eru ýmsar upplýsingar kallaðar fram. Hér má t.d. finna lista yfir sigurbíla ársins hvern í sínum flokki.