Öryggi barnanna í bílnum
Þrátt fyrir að það sé vilji flestallra foreldra að börn þeirra séu eins örugg í bílnum og mögulegt er, er það engu að síður sorgleg staðreynd að börn bæði slasast og deyja í bílum vegna þess að barnaöryggisbúnaðurinn er ranglega festur í bílinn eða þá að hann hæfir ekki aldri, stærð eða þyngd barnsins. Volvo í Svíþjóð hefur nú gefið út handbók þar sem því er lýst hvernig öryggi ófrískra kvenna og barna á mismunandi aldursskeiðum er best tryggt í bílnum. Auto Motor & Sport í Svíþjóð greinir frá þessu.
- Við erum sífellt spurð hver sé öruggasti staðurinn í bílnum fyrir barnið, hvernig festa á barnið í barnastólinn og hvort bílbeltið geti slasað ófrískar konur og börnin sem þau bera undir belti. Þessum spurningum er svarað í handbókinni okkar um öryggi barnanna í bílnum – segir Lotta Jakobsson, sérfræðingur í öryggi barna við öryggisdeild Volvo í Gautaborg.
Sérfræðingurinn bendir á mikla höfuðþyngd barna í hlutfalli við líkamsþyngd. Þannig sé þyngd á höfði níu mánaða gamals barns hvorki meira né minna en 25% af líkamsþyngd þess meðan þyngd höfuðsins hjá fullorðinni manneskju er um það bil 6% af líkamsþyngdinni. Háls og hálsliðir barnsins eru langt frá því að vera jafn þroskaðir sterkir og í fullorðnum til að mæta áföllum. Í framaná-árekstri kastast höfuð barns sem situr í framvísandi stól, framávið af miklu afli. Hálsinn á fullorðinni manneskju getur mætt slíku höggi tiltölulega vel en ekki háls barnsins. Af þessari ástæðu og hversu framanáarekstrar eru algengir og oftast harkalegir, er það sérlega mikilvægt að lítil börn sitji í afturvísandi barnastólum í bílnum. –Afturvísandi barnastólar eru langsamlega öruggastir fyrir börnin og við hjá Volvo mælum með þeim þar sem það er mögulegt- segir Lotta Jakobsson.
Þær ráðleggingar sem í handbókinni eru byggja á eigin rannsóknum öryggisdeildar Volvo á raunverulegum umferðarslysum. Í gagnabanka deildarinnar eru gögn um meir en 36 þúsund umferðarslys þar sem yfir 60 þúsund manns komið við sögu. Lotta Jakobsson segir þennan gagnagrunn einstakan og rannsóknirnar sömuleiðis og þær sýni að afturvísandi barnastólar veiti ungum börnum góða vörn. Foreldrum sé ráðlagt að hafa börnin í afturvísandi stól sem lengst, allavega þar til þau eru vaxin upp úr stólnum. Ekki sé ráðlegt að láta börn vera í framvísandi stól fyrr en þau eru orðin minnst þriggja ára gömul.
Þessi öryggishandbók Volvo gildir ekki einungis fyrir öryggi barna í bílum frá Volvo heldur í öllum bílum. Á heimasíðu Volvo í Svíþjóð segir að bókin verði fáanleg hjá öllum söluumboðum Volvo en verði auk þess dreift í tengslum við hverskonar markaðsstarfsemi Volvo.