Öryggið framar öllu
Sjónvarpsstöð Evrópusambandsins sendir reglulega út fréttir af starfsemi sambandsins. Þar birtist í gær þessi frétt af nýjum öryggisbúnaði í bíla sem ætlaður er bæði til að forða slysum og einnig að draga úr líkum á alvarlegum meiðslum og líkamstjóni.
Bætt öryggi í umferðinni hefur alla tíð verið og er enn eitt af höfuðmarkmiðum FÍB og systurfélaga þess innan FiA, alþjóðasambands bifreiðaeigenda- og akstursíþróttaklúbba. Undanfarin ár hefur FiA og einstakir klúbbar innan samtakanna tekið öflugt frumkvæði í umferðaröryggismálum, skilgreint vandann og leitað markvisst að úrlausnum.
Vegna þessa frumkvæðis hafa augu almennings og yfirvalda loksins lokist upp fyrir því að vandinn er margþættur og því hafa menn í vaxandi mæli horfið frá því að beina athyglinni einungis að ökumennum og setja alla ábyrgðina á þeirra herðar, heldur beint sjónum sínum að flestum þeim þáttum sem umferð og hreyfanleiki fólks er samsettur úr.
Af einstökum þáttum þessa starfs bílaklúbbanna innan FiA má nefna EuroNCAP árekstursprófanirnar, EuroRAP vegrýnina, EuroTEST prófunarstofnunina sem prófar m.a. öryggisbúnað fyrir börn, öryggi fótgangandi í umferð helstu borga í Evrópu, almannasamgöngur og margt fleira. Starf EuroRAP hefur skilað almenningi miklu betri og öruggari bílum en nokkru sinni áður, EuroRAP vegrýnin er sem óðast að skila almenningi öruggari vegum og samgönguleiðum og EuroTest stórbættum barnaöryggisbúnaði, svo fátt eitt sé nefnt. Frá þessu er reglulega greint í FÍB blaðinu og hér á fréttavef FÍB.
Ef til vill er það þó mikilvægasti árangurinn sem náðst hefur með allri þessari starfsemi sá, að tekist hefur að vekja athygli og samvisku stjórnmálamanna og fjölmiðlafólks á mikilvægi þess að gæta að öryggi vegfarenda hvarvetna í heiminum og bæta það eftir megni, hvernig svo sem fólk fer leiðar sinnar - akandi, hjólandi, gangandi eða með almannasamgöngutækjum.
Evrópusambandið hefur í mjög vaxandi mæli tekið umferðaröryggi upp á sína arma og vinnur náið með FiA að umferðaröryggismálum og þróun tækni sem forðað gæti slysum og dregið úr alvarlegum afleiðingum slysa. Meðal þess er lögleiðing ESC stöðugleikabúnaðar í fólksbíla og sjálfvirkrar neyðarhemlunar í bíla, sem greint er frá hér á fréttavef FÍB.