Óseldir Volt-bílar hafa hrannast upp

Þótt salan á Chevrolet Volt rafbílnum í nýliðnum febrúar hafi aukist um heil 60% miðað við janúarmánuð, þá er hún að sönnu langt undir því sem upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Mikill áhugi var fyrir bílnum síðustu mánuði og vikur áður en hann kom á almennan markað í Bandaríkjunum á síðari hluta árs 2011. En svo gerðist það að rúmri viku eftir að bandaríska umferðaröryggisstofnunin NHTSA hafði árekstursprófað Chevrolet Volt,  að kviknaði í rafgeymum bílflaksins. Mikil umfjöllun um málið í bandarískum fjölmiðlum varð til þess að ótti greip um sig meðal bílakaupenda og salan nánast stöðvaðist. Söluaukningin í febrúar þykir því vera gott mál og merki um að ótti bílakaupenda við rafgeymana sé að hverfa.

Nú hefur stjórn GM engu að síður ákveðið að stöðva framleiðslu á Volt næstu fimm vikurnar en óseldir nýir Volt bílar hafa hrannast upp. Um 1.300 manns sem vinna við að setja saman bílana í verksmiðjunni í Detroit verða sendir í frí eða á atvinnuleysisbætur frá og með 19. mars til 23. apríl. Talsmaður GM segir að stöðvunin sé ekki merki um það að Chevrolet Volt sé orðinn að einhverskonar óbætanlegu stórslysi. „Við erum einungis að stilla framleiðsluna af eftir kröfum markaðarins á hverjum tíma, segir talsmaðurinn sem heitir Michelle Malcho, í viðtali við netmiðilinn The Detroit Bureau.

Hún segir að söluaukningin í febrúar miðað við janúar sé merki um það að efiðleikarnir séu senn að baki. Bílakaupendur séu aftur að öðlast tiltrú á því að bíllinn sé öruggur, enda hafi sérstök rannsókn NHTSA á brunanum fyrrnefnda leitt það í ljós. Rannsóknarsýrslan sem og þær breytingar á rafkerfinu sem GM gerði í kjölfarið séu þess eðlis að bíllinn hafi fengið sitt heilbrigðisvottorð.