Óstöðugur Renault/Dacia Logan
03.08.2005
Logan á hvolfi.
Renault/Dacia Logan, ódýri smábíllinn nýi frá Renault er nýkominn á Þýskalandsmarkað. Bíllinn er líklegast ódýrasti nýi bíllinn sem þar þar er fáanlegur um þessar mundir. En er öryggi hans í samræmi við aðra bíla, ekki síst Renault bíla sem eru með þeim traustustu í árekstrarprófunum Euro-NCAP? Svarið er nei, því að Logan hlaut einungis þrjár stjörnur af fimm. Nú hafa bílablaðamenn verið að reynsluaka Logan og ekki virðist hann heldur öruggur í akstri því að hann valt í svonefndu elgsprófi hjá ADAC, hinu þýska systurfélagi FÍB.
Logan að velta.
Elgsprófið felst í því að taka röð krappra beygja og líkja þannig eftir því að stýra framhjá t.d. barni sem hleypur fyrirvaralaust inn á veginn. Loganinn valt í prófinu á einungis 65 km hraða en margir fólksbílar ráða við elgsprófið á umtalsvert meiri hraða en það. Við veltuna þótti bílasérfræðingum ADAC sem svonefndur A-biti eða burðarstólpi sem er lóðrétti stólpinn frá botni bílsins og upp með framrúðunni aflagast meir en góðu hófi gegndi.
Danir eru sú Evrópuþjóð sem er með ein hæstu skráningargjöld á nýja bíla í heiminum og einna stærstan hlut smábíla í umferð. Þar í landi hefur hins ódýra Logan verið beðið með nokkurri eftirvæntingu en ekki er víst að hann muni seljast vel þar eftir þessa veltu og áður framkomna niðurstöðu í árekstrarprófi Euro-NCAP, því að FDM, systurfélag FÍB hefur sent frá sér frétt þar sem fólk er varað við bílnum og segir við bílainnflutnings- og -sölufyrirtækin: „Haldið þessum bíl vinsamlegast sem lengst frá Danmörku.“
Nánast hvaða nútíma fólksbíll sem er ræður við elgsprófið á 65 km hraða án þess að velta. Vegna þess að jafnvægi í bílum er mismunandi þá standa bílar eðlilega mis-stöðugir í gegn um prófið á þessum hraða. Þeir stöðugustu skrensa þó varla einu sinni. Tæknimenn ADAC segja að ekki sé hægt að kenna því um að rangur loftþrýstingur hafi verið í dekkjunum né heldur því að dekkin sjálf hafi verið léleg. Engu slíku hafi verið til að dreifa.
Árið 1999 valt fyrsta kynslóð Mercedes Benz A í elgsprófi hjá sænska bílablaðamanninum Robert Collin. Það varð til þess að framleiðsla á bílnum var stöðvuð tímabundið meðan hjólabúnaður bílsins var lagfærður auk þess sem settur var ESP stöðugleikabúnaður í alla A-Benz bíla eftir atvikið. Ekki þykir líklegt að slíkur búnaður verði settur í þennan ódýra og einfalda bíl.