Óverðtryggðir vextir SÍ standa
Fyrir stuttri stundu féll dómur Hæstaréttar í því sem kallað hefur verið gengislánamálið. Hann er á þann veg að Hæstiréttur staðfestir dóm héraðsdóms sem var sá að þeir vextir sem lántakanda ber að greiða af láninu eru vextir Seðlabanka Íslands af óverðtryggðum lánum eins og þeir eru ákveðnir á hverjum tíma.
Málið var höfðað í kjölfar dóma Hæstaréttar um það að verðtrygging tengd gengi erlendra gjaldmiðla væri ólögleg. Þessi svokölluðu erlendu lán voru flest gengistryggð þannig en með mjög lágum nafnvöxtum. Spurningin snerist því um það hvort þeir vextir skyldu standa eða hvort vextir Seðlabanka af óverðtryggðum lánum skyldu gilda. Héraðsdómur taldi á sínum tíma að óverðtryggðir vextir Seðlabankans ættu að gilda, en ekki lágir nafnvextir skuldabréfanna. Seðlabankavextirnir hafa verið að meðaltali um fimmtán prósent allt frá 2006.
Nú hefur Hæstiréttur skorið úr þessum ágreiningi og er því orðið nokkuð ljóst orðið hvert framhald þesara bílalánamála verður. Fljótlega, eða kl 17.00 hefst blaðamannafundur Efnahags- og viðskiptaráðuneytisins vegna þessa máls. Þar sitja fyrir svörum auk efnahags- og viðskiptaráðherra, hSeðlabankastjóri og forstjóri Fjármálaeftirlitsins.