Óvissa um framtíð sænska bílaiðnaðarins
Leiðtogar Ford, GM og Chrysler í Detroit í Bandaríkjunum hafa í vikunnni setið fyrir svörum hjá bandaríska þinginu í Washington um hvað þeir hyggist gera til að bjarga fyrirtækjum sínum frá gjaldþroti og verðskulda hagstæð lán hjá hinu opinbera til bjargar úr vandanum.
Öruggt má telja að fyrirtækin verði að selja frá sér bókstaflega allt sem þau mögulega geta verið án. Þar með eru talin dótturfyrirtæki eins og Saab í Svíþjóð (GM) og Volvo, einnig í Svíþjóð (Ford). Það er því ljóst að Svíar eiga mikið undir hvernig mál skipast. Miklu skiptir fyrir þá hvort og hvernig til tekst.
Sú björgunaráætlun sem GM lagði í vikunni fyrir bandaríska þingið hefur ekki verið birt en erlendir fjölmiðlar fullyrða að þar sé gert ráð fyrir því að Saab verð selt og dótturfyrirtækið GEO, sem selur Opel Vectra í Bandaríkjunum undir nafninu GEO Saturn, verði það sömuleiðis. Öll áherslan sé á að bjarga aðal-vörumerkjunum sem eru GMC, Chevrolet, Cadillac og jafnvel Buick sem nýtur velgengni í Kína um þessar mundir. En allir möguleikar séu til skoðunar og ákvörðun um hvað verður skorið frá muni liggja fyrir innan mjög skamms. –Því fyrr, þeim mun betra,- segir Fritz Henderson framkvæmdastjóri GM í Evrópu.
Sænsku bílarnir hafa lengstum haft á sér gott orð fyrir styrk, öryggi lága bilanatíðni og frábæra endngu. Eftir að sænski bílaiðnaðurinn komst alfarið í hendur Ford og GM hafa þær raddir orðið háværari sem segja að sænsku bílarnir séu ekki lengur það sem þeir áður voru, þ.e.a.s. sterkir og endingargóðir. Og nýjar og nýlegar bilanatíðnitölur og upplýsingar um innkallanir sýna að hvorki Volvo né Saab eru lengur meðal þeirra bíla sem minnst bila.
Mikill áhugi er fyrir því í Svíþjóð að sænski bílaiðnaðurinn lifi hremmingarnar af, hann komist á ný í sænskar hendur sem hefji hann til vegs á ný. Æðsti yfirmaður GM í Evrópu, Carl-Peter Forster, hefur beðið sent starfsmönnum Saab tölvupóst og beðið þá að vera rólega, jákvæða og með skarpa framtíðarsýn þrátt fyrir óvissuástandið nú. Nýju gerðirnar sem boðaðar hafi verið, séu á áætlun, nýi 9-5 bíllinn komi næsta haust og 9-4X ári síðar.
En horfurnar eru ekki sérlega bjartar hjá Saab. Stöðugt og langvarandi tap hefur verið og er á rekstrinum og í stjórn GM hafa verið raddir um að leggja Saab hreinlega niður. Í aðalaðsetri Saab í Trollhättan tala starfsmennirnir um að Carl-Peter Forster sé eini sanni vinur Saab innan yfirstjórnar GM. Ástæðan er sú að maðurinn er mikill bílamaður sem alltaf hefur haft trú á Saab og talið merkið með sína góðu fortíð eiga framtíðina fyrir sér. Eftir að hann varð Evrópuforstjóri GM hefur hann alla tíð unnið að því að gefa Saab í Trollhättan frelsi og sjálfstæði innan mögulegra fjárhagsramma til að hanna og framleiða þá bíla sem menn gátu og vildu. En hönnunar- og framleiðslutími hvers nýs bíls er langur og hjá litlum framleiðanda sem auk þess er rekinn með tapi er hann enn lengri. Það er meginástæða þess hve biðin eftir nýjum Saab 9-5 er löng.
Í fyrrnefndum tölvupósti Carl-Peter Forsters til starfsmanna Saab lýsir hann ástandinu í höfuðstöðvum GM og þeim valkostum sem menn standa frammi fyrir nú. Hann útilokar vissulega ekki að Saab verði selt en hugsanleg sé einnig annarskonar sérfjármögnun en bein sala. Hann leggur áherslu á að kynning og markaðssetning nýju gerðanna gangi fram samkvæmt áætlunum og biður menn að halda áfram störfum, fókusera á framtíðina og vera jákvæða þrátt fyrir erfiðleikana. Þá muni Saab koma sterkari út úr vandanum.