P-NUT

Nú stendur yfir stór bílasýning í Los Angeles þar sem gefur að líta fjölmargar nýjungar og raungerðar hugmyndir um bíla framtíðarinnar. Honda sýnir á þessari sýningu afar athyglisverðan hugmyndarbíl sem einkum er hugsaður til nota í borgarsnattið. Þessi hugmyndarbíll Honda nefnist P-NUT sem er skammstöfun Personal-Neo Urban Transport.

 P-NUT er fyrst og fremst hugsaður -eins og Smart- til notkunar í borgum en eins og hjá Toyota með sinn IQ sem nú er orðinn að veruleika, hafa hönnuðirnir fengið að sleppa hugarfluginu lausu sem sannarlega leynir sér ekki, hvort heldur er í innréttingu og rýmisnýtingu en einnig í útliti. P-NUT er þriggja manna, ökumaðurinn situr fremst fyrir miðju en fyrir aftan hann og til hliðanna eru tveir farþegastólar. Í þeim er mjög rúmt um farþegana sem hafa nóg fótarými sínu hvoru megin við ökumannsstólinn. Talsmaður Honda á sýningunni í Los Angeles segir að farþegarnir hafi jafnt rúmt um sig og í meðalstórum bíl (á ameríska vísu). Fyrirferð bílsins í umferðinni sé hins vegar ekki meiri en gerist um minnstu smábíla.

Hægt er að fella niður farþegaasætin eða fjarlægja til að skapa meira farangursrými. Vélin er aftur í bílnum og drifbúnaðurinn sömuleiðis og drifið er á afturhjólunum. Og til að spara innanrými birtast hraðamælir og aðrir mælar bílsins, GPS leiðsagnarmynd og útsýn afturfyrir bílinn sem „sjónvarpsmynd“ á framrúðunni, Þar með eru engir baksýnisspeglar utan á hliðunum heldur einungis innbyggð sjónvarpsmyndavél sem þjónar sama tilgangi.

Yfirhönnuður hönnunardeilar  Honda í Los Angeles í Bandaríkjunum, David Marek, segir við fjölmiðla að tilgangurinn með hönnun þessarar frumgerðar að borgarbíl, hefði ekki síst verið að finna nýjar leiðir til að hanna litla bíla með eins mikið notagildi og eins mikil þægindi og hugsast gæti og þannig að útrýma þeim vandamálum sem alla tíð hafa einkennt smábíla. „ Í P-NUT hefur okkur tekist að sýna fram á að þetta er mögulegt. Hann er staðfesting þess að ekki þarf að fórna neinu í hönnun né þægindum þegar smábílar eiga í hlut.

 Mótorinn og drifbúnaðurinn er aftur í bílnum og drifið á afturhjólunum sem fyrr er sagt. Vélarrúmið er hannað þannig að mögulegt sé að koma fyrir margskonar vélargerðum, ekki aðeins hefðbundnum brunahreyflum heldur allt eins rafmótor ásamt rafhlöðum eða þá lítilli bensín- eða dísilrafstöð í stað stórs rafhlöðupakka.