Páfinn fær sér VW Phaeton

http://www.fib.is/myndir/Pafabill1.jpg
Bernd Pischetsrieder forstjóri VW og Benedikt XVI. páfi spá í nýja bílinn.

Volkswagen hefur gengið afar báglega að selja lúxusbílinn VW Phaeton. Bíllinn er byggður í nýrri verksmiðju VW í Dresden þar sem samsetningarfólkið stendur við vinnu sína á stífbónuðu parketgólfinu við að skrúfa saman Fetóninn. Vera kann að hinn þýskættaði páfi hafi viljað koma löndum sínum í Wolfsburg í Þýskalandi til hjálpar í nauðum með því að taka við einu eintaki – allavega mætti forstjóri VW, Bernd Pischetsrieder sjálfur í Vatíkanið í vikunni með nýjan VW Phaeton og afhenti páfa bílinn og lyklana að honum.

Ekki mun Benedikt páfi 16. þó aka sjálfur þessum ágæta eðalvagni því að hann hefur ekki ökuréttindi og hefur aldrei haft. Fyrir á páfi annan nýjan evrópskan bíl sem hann fékk afhentan fyrr á þessu ári. Það er Volvo XC 90 með 315 hestafla V8 bensínvél. Í bílskúrum páfastóls eru nú um 60 bílar. Flestir eru fengnir að gjöf frá bílaframleiðendum.

Bernd Pischetsrieder var að vonum ánægður með að páfi skyldi þiggja bílinn og sagði við blaðamenn eftir afhendinguna að þeim hjá Volkswagen væri það mikill heiður að sjálfur páfinn, Benedikt XVI skyldi hafa fengið frábæran ferðabíl í hendur til ferðalaga.

Nýi páfabíllinn er svartur að lit með sanseraðri málmáferð. Hið innra er bíllinn klæddur gráu leðri og vélin er 450 hestafla. Í bílnum er margskonar búnaður bæði til þæginda og öryggis en einnig til fjarskipta og samskipta við umheiminn. Samskonar bíll kostar við verksmiðjudyr í Dresden 150 þúsund evrur.
http://www.fib.is/myndir/Pafabill2.jpg
Frá afhendingu nýja bílsins í Vatíkaninu í Róm.