Peugeot/Citroën og Mitsubishi í sameiningarviðræðum
PSA (Peugeot-Citroen) í Frakklandi hefur staðfest fregnir um viðræður milli PSA og Mitsubishi um nána samvinnu eða jafnvel sameiningu. Fyrst um sinn mun samvinnan fyrst og fremst snúast um að hraða þróun rafbíla.
Eflaust er fyrirmyndin hið árangursríka samband milli Nissan og hins franska Renault sem staðið hefur um árabil og ekki síst gagnast Frökkunum sem hafa notið vel vandvirkni og góðs gæðaeftirlits Japananna og komið fram með sífellt betri bíla hvað varðar endingu og áreiðanleika.
Talsmenn PSA-samsteypunnar staðfestu í gær fregnir sem hafa birst í japönskum fjölmiðlum um viðræðurnar og um að stefnt væri að því að hvort fyrirtæki um sig eignist 30-50 prósenta hlut í hinu.
Samruni Mitsubishi og Peugeot/Citroën er á sinn hátt frekari staðfesting og framhald á þeirri samvinnu sem þegar á sér stað milli þeirra. Hagræðið er augljóst: Báðir aðilar munu geta nýtt sér grunnplötur, vélar og tækni sem þegar fyrirfinnst hjá báðum og síðan átt samvinnu um þróun og nýsköpun og skipt með sér kostnaðinum af þeirri dýru vinnu. Mitsubishi getur t.d. nýtt sér mikla og góða dísilvélatækni og –þekkingu PSA en lítið framboð dísilvéla hefur vissulega verið Mitsubishi og reyndar fleiri japönskum bílaframleiðendum mikill trafali í sókn inn á evrópskan bílamarkað. Dísilvélar í fólksbíla eru einfaldlega forsenda þess að ná upp skaplegri markaðshlutdeil á evrópskum bílamarkaði.
Mitsubishi hefur um árabil átt í samstarfi við Chrysler um bílaframleiðslu og framleiðslu bílvéla og tæknibúnaðar. Eftir að Fiat og Chrysler sameinuðust hefur samstarf Mitsubishi og Chryslers verið að fjara út. Nánari samvinna við annan stóran bílaframleiðanda hlýtur því að teljast nokkur himnasending fyrir Mitsubishi.
Samvinnan eða samruninn gagnast PSA ekki síst í sambandi við þróun nýrra tvinn- og rafbíla en þar er Mitsubishi bílaframleiðslan í góðum málum sem hluti af risastóru hátæknifyrirtæki og framleiðanda hverskonar rafbúnaðar og rafmagnsframleiðslubúnaðar. Móðurfyrirtæki Mitsubishi Motors bílaverksmiðjanna heitir Mitsubishi Corporation og auk þess að eiga bílaframleiðsluna á MC einnig stærstu rafhlöðuverksmiðju Japans sem heitir Lithium Energy Japan. Sú verksmiðja framleiðir einmitt rafhlöðurnar í rafmagnsbílinn Mitsubishi i-Miev sem kemur á markað í Frakklandi á næsta ári sem bæði Citroën C-Zero og Peugeot iOn.
Frönsk stjórnvöld leggja um þessar mundir mikla áherslu á að rafbílavæða umferðina, bæði með hreinum rafbílum og tvíorkubílum. Ríkið hefur eyrnamerkt milljarða evra í að byggja upp innviði í landinu fyrir rafbíla og styðja við bakið á innlendri rafbílaframleiðslu með því að kaupa 50 þúsund rafbíla fyrir ríkisfyrirtæki og ríkisstarfsmenn á næsta ári í stað bensín- og dísilbíla sem ríkið á og rekur nú.