Pininfarina-Bolloré rafbíll 2010

http://www.fib.is/myndir/Bollore-Rafbill1.jpg
Bolloré sýndi þennan rafbíl á Parísarbílasýningunni 2006. Hvort útlit nýja bílsins verður svipað er ekki enn vitað.

Franska tækni- og rafhlöðufyrirtækið Bolloré og ítalska bílafyrirtækið Pininfarina sendu frá sér sameiginlega fréttatilkynningu rétt fyrir jólin um að þau séu að hefja framleiðslu á rafmagnsbíl. Bíllinn verður byggður í verksmiðju Pininfarina á Ítalíu en Bolloré leggur til rafhlöðurnar í hann. Bíllinn verður markaðssettur í Evrópu, Bandaríkjunum og Japan í ársbyrjun 2010. Evrópskir fjölmiðlar greina frá því að frumgerð bílsins verði sýnd á bílasýningunni í Genf 6.-16. mars næstkomandi.http://www.fib.is/myndir/Bollore-Rafbill_2.jpg

Fyrirtækin tvö eiga jafna hlutdeild í þessari fyrirætlun og nemur fjárfestingin í henni 150 milljíónum evra. Byggðir verða 15 þúsund bílar á ári. Sjálfur bíllinn verður fjögurra manna bíll til nota í borgum fyrst og fremst. Hann á að komast 250 kílómetra á rafhleðslunni, hámarkshraði hans er 130 km / klst. og viðbragðið er 4,9 sekúndur úr kyrrstöðu í 50 km / klst.

Rafhlöðurnar er af svokallaðri Lithium Metal Polymer – gerð og eru þær endurhlaðnar með því einfaldlega að stinga í samband við venjulega heimilisinnstungu. Einungis fimm klst. tekur að fullhlaða tómar rafhlöður en fimm mínútna hleðsla dugar til að aka 25 kílómetra.
Hin umrædda Lithium Metal Polymer - rafhlöðutækni er ekki ósvipuð þeirri sem er í farsímarafhlöðum en Bolloré hefur unnið að þróun þessara bílarafhlaðna um 15 ára skeið. Engin sýra eða vökvi er í rafhlöðunum og tölvutækni er nýtt til að vaka yfir sérhverri rafhlöðueiningu, spennnu og hitastigi hennar til að nýtni og ending verði sem allra best. Rafhlöðurnar eru í sterkum stálkassa sem ver þær skemmdum. Þær eru sagðar endast 200 þúsund kílómetra.

Pininfarina er mjög þekkt bílafyrirtæki sem bæði sérhannar bíla fyrir ýmsa bílaframleiðendur og framleiðir fjölmargar sérgerðir bíla fyrir þá. Bolloré er mjög öflugt tæknifyrirtæki sem hingað til hefur verið þekktast fyrir framleiðslu á hverskonar þéttum til ýmissa nota, m.a. í rafala og rafstöðvar. Um 25 þúsund manns starfa hjá Bolloré.