Pirrandi umferðarhegðun
Hvað er það í umferðarhegðun annarra ökumanna (annarra en manns sjálfs auðvitað!) sem mest reynir á taugarnar? Nú hefur þetta verið kannað í Noregi fyrir bíltæknirisann Continental, og niðurstöðurnar eru allrar athygli verðar.
Það sem mest fer í taugar flestra Norðmanna (40 prósent svarenda) er vafasamur og glannalegur framúrakstur. Þá nefndu 20 prósent aðspurðra ökumenn sem aka mjög þétt aftanvið næsta bíl, eða „hengja sig á stuðarann“ á bílnum á undan sem það sem mest pirraði, 19 prósent nefndu enga eða ranga notkun stefnuljósa og 11 prósent farsímanotkun undir stýri.
Sáralítill munur reyndist vera á svörum fólks eftir aldri eða kyni og lítilsháttar eftir búsetu. Mestur munur eftir búsetu greindist milli íbúa hins strjálbýla Norður Noregs og hins þéttbýla Suður Noregs. 51% Norðlendinganna sögðu háskalegan framúrakstur vera það versta en 32 prósent Sunnlendinga.
Continental framleiðir ekki einvörðungu hjólbarða heldur er fyrirtækið mjög stórt í framleiðslu öryggisbúnaðar í bíla og hverskonar öryggiskerfa til að koma í veg fyrir umferðarslys. Í þessum framleiðslugeira starfar Continental samkvæmt stefnu sem kallast Continental Vision Zero eða núll-lausn. Fyrsta stig þessarar stefnu er að stuðla að því að útrýma dauðaslysum í umferðinni. Annað stigið er síðan að útrýma líkamstjóni. Þriðja stigið og lokatakmarkið er svo að enginn deyi eða slasist í umferðinni.