Pischetsrieder áfram forstjóri VW
Bernd Pischetsrieder verður áfram forstjóri Volkswagen næstu fimm árin. Það varð niðurstaða atkvæðagreiðslu á stjórnarfundi Volkswagen í gær, þriðjudag. Tveir þriðju stjórnarmana greiddu því atkvæði sitt að andurnýja ráðningarsamning við Pischetsrieder sem renna átti út í lok þessa árs.
Fyrir stjórnarfundinn í gær var mikið búið að spá og spekúlera í því hver yrði eftirmaður Pischetsrieders ekki síst eftir að skroppið hafði upp úr Ferdinand Piëch, fyrrverandi forstjóra og núverandi stjórnarmanni við fjölmiðla, að það væri óráðin gáta, hver yrði næsti forstjóri VW. Þá var Bernd Pischetsrieder ekki talinn sérlega vinsæll meðal almennra starfsmanna VW og verkalýðsfélaga þeirra fyrir að beita niðurskurðarhnífnum ótæpilega. Þegar öllu verður til skila haldið munu samtals 20 þúsund starfsmenn VW missa störf sín hjá VW. Vegna harðrar aðhaldsstefnu Pischetsrieders var óvissa um hvernig atkvæði myndu falla um framtíð hans í forstjórastólnum, ekki síst vegna þess að 10 af 20 stjórnarmönnum eru kjörnir af starfsmönnum.
Í dag fer fram aðalfundur Volkswagen í Hamborg. Reikna má með því að sparnaðar- og aðhaldstillögur og endurnýjað umboð forstjórans verði þar til umræðu. Samkvæmt þeim mun fyrirtækið draga úr útgjöldum um 10 milljarða evra og hagnaður fyrir skatta á að vaxa um fjóra milljarða og verða 5,1 milljarður evra árið 2008.