Polestar 3 náði næstbestu vetrarniðurstöðum sem sést hafa

Vetrarafbílarannsókn Félags norskra bifreiðaeigenda, NAF, og Motor félagstímaritsins lauk um helgina. Prófanir hófust í byrjun síðustu viku og þeim lauk formlega sl. föstudag. NAF rafbílarannsóknin er sú viðamesta í heimunum og er þetta í sjötta sinn sem hún er framkvæmd. NAF og Motor hafa um árabil gert vandaðar prófanir á drægni og úttektir á rafbílum, bæði að sumar- og vetrarlagi. 

Að rannsókninni koma fagmenn hver á sínu sviði

Að rannsókninni koma fagmenn hver á sínu sviði og ríkir eftirvænting eftir niðurstöðu hennar hjá bílaáhugamönnum sem og bílaframleiðendum enda Norðmenn í fremstu röð í heiminum þegar kemur að rafbílavæðingunni. Í prófuninni var raundrægi rafbíla í vetraraðstæðum skoðað og enn fremur hvernig bílarnir bregðast við þegar rafhlaðan er að tæmast.

Prófið hófst í miðborg Óslóar árla morguns og fór fram, bæði á láglendi og á fjallvegum. Tveir voru í hverjum bíl, ökumaður og aðstoðarökumaður. Hver einstakur bíll þurfti að halda áfram þar til bíllinn varð rafmagnslaus. Þá fyrst var kílómetrafjöldi skráður. Eftir þetta þurftu prófunarteymin að bíða eftir að vegaaðstoð NAF kæmi á staðinn og flytti orkulaus ökutækin að prófunar- og hleðslustað.

Bílunum var ekið á leyfilegum hámarkshraða þar til þeir urðu rafmagnslausir. Ökumenn, sem allir eru reyndir voru með hleðsluhemlun virka (e. regenerative braking). Þeir urðu að aka í venjulegri stillingu og forðast að nota ökumannsaðstoðarkerfi, sjálfstýringu og aðlagandi hraðastilli.

Tesla mætti til prófsins með Model 3 sem var með yfir 700 km WLTP-drægni. En bíllinn var langt frá þeim tölum og tapaði fyrir Polestar 3 – sem náði næstbestu vetrarniðurstöðum sem sést hafa.

Tesla hefur verið ráðandi á toppnum í fyrri drægniprófunum og með 702 km WLTP-drægni var búist við að afturhjóladrifni Model 3 myndi ná umtalsvert lengra en keppinautarnir í þetta skipti. En hann olli vonbrigðum, þótt hann næði næstum jafn langt og Polestar 3.

Neikvætt frávik Tesla frá WLTP var nærri 25 prósent

Motor og NAF taka nýja rafbíla í prófanir bæði að sumri og vetri til að fá vísbendingar um hversu mikil frávikin eru frá opinberu WLTP-tölunum. Það þýðir að horft er fyrst og fremst á muninn á milli WLTP og drægninar sem mælt er.

Með endanlegt stopp eftir 531 kílómetra akstur var frávik Polestar 3 aðeins 5,18 prósent, sem eru næstbestu niðurstöður sem fengist hafa í sex könnunum af vetrarprófuninni. Minnsta frávikið sem sést hefur í vetrarprófi er 4,0 prósent – sem BMW iX3 náði árið 2021.

Dagana á undan fyrir könnunina var mjög kalt í veðri en við tók mildara veður. Yfirleitt kostar mikill kuldi meiri drægni en blautir vegir, en hvort tveggja dregur úr drægninni. Á hinn bóginn kemur í ljós að bílarnir verða sífellt betri. Í prófunum þessa árs voru uppfærðar útgáfur af módel eins og Nio EL8 (áður ES8), Ioniq 5, BYD Tang og Porsche Taycan. Með Q6 e-tron hefur Audi einnig fengið alvöru langdrægan bíl, með WLTP drægni upp á 616 kílómetra fyrir prófbílinn.

Svona enduðu bílarnir í vetrarprófinu í ár, byggt á tölum úr aksturstölvum þeirra.