Pors eða Porsjé?
Framburður á nafni eins þekktasta sportbíls veraldar hefur lengi verið á reiki, ekki bara hér á Íslandi heldur líka víðar um heim. Þessi bifreiðategund er kennd við hinn upphaflega skapara sinn sem á árunum milli heimsstyrjalda 20. aldarinnar skóp einnig Volksvagen bjölluna, þann bíl sem varð alþýðuvagn hins vestræna heims að lokinni síðari heimsstyrjöld. Þessi maður var þýski vélaverkfræðingurinn Ferdinant Porsche.
Bíltegundin sem um ræðir er auðvitað Porsche og það eintak sem myndin sýnir er ofurbíllinn Porsche 930 Turbo árgerð 1983. Þetta er alþýskur eðalbíll, byggður á upphaflegri hönnun Ferdinants heitins og byggður í verksmiðjunni í Stuttgart í Þýskalandi. En hvernig á að bera nafn bílsins fram? Hvort er þetta Pors eða Porsjé? Hér á Íslandi er þetta mjög á reiki og menn skiptast í tvö horn með hvor framburðurinn sé sá rétti. Meira samræmi er í þessu framburðarmáli í Bandaríkjunum því þar segja flestallir Pors. En er það rétt?
FÍB fréttir báru framburðarmálið eitt sinn undir þýskan bílablaðamann og ritstjóra og hann sagði að Porsche væri þýskt nafn og þar í landi dytti fáum ef nokkrum það í hug að bera það öðruvísi fram en sem tveggja atkvæða orð - sem sagt Porsche (,,Porsjé"). Þýski blaðamaðurinn sendi svo hlekk inn á hljóðrás sem er að finna á fáeinum bandarísku netmiðlum sem fjalla um bíla. Með þessari hljóðrás er greinilega verið að reyna að kenna bandarísku bílaáhugafólki réttan, eða í það minnsta upprunalegan framburð á nafninu Porsche.
En framburður á nöfnum fleiri bílategunda eru á reiki hér og víðar. Bandaríska tegundin Chevrolet sækir nafn sitt til Frakkans og kappakstursmannsins Louis Chevrolet sem fluttist til Bandaríkjanna snemma á 20. öldinni. Þá sögu þekkja margir bandarískir bílamenn og bera því tegundarheitið fram á franska vísu og segja ,,Sjevrole" en Íslendingar segja oftast bara ,,Sjévrólett." Hinir frönsku Renault bílar eru algengir hérlendis og í útvarps- og sjónvarpsauglýsingum eru þeir ávalt nefndir Runó. FÍB fréttir hafa borið þennan ,,Runó"- framburð undir íslenskan riíkisborgara sem fæddist og ólst upp í Frakklandi. Hann ber nafn bíltegundarinnar fram sem ,,Renó." Hér er hljóðrás sem staðfestir þetta.