Porsche á orðið yfir 50 prósent atkvæðisbærra hlutabréfa í Volkswagen
Porsche hefur enn aukið eignarhlut sinn í Volkswagen og á nú yfir 50 prósent hluta í fyrirtækinu sem atkvæðisréttur fylgir. En þar sem Volkswagen er þegar meirihlutaeigandi í Scania í Svíþjóð, er Porsche því óbeint orðinn ráðandi eigandi í Scania.
Samkvæmt sænskum lögum ber Porsche nú að leggja fram yfirtökutilboð í önnur hlutabréf í Scania. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Porsche. Í samtali við Reuters fréttastofuna segir talsmaður Porsche hinsvegar að ekki sé áhugi fyrir því að eignast öll hlutabréfin í Scania og yfirtaka hinar sænsku vörubílaverksmiðjur.