Porsche áfram í Finnlandi
17.10.2007
Porsche hefur framlengt samning við finnsku traktoraverksmiðjuna Valmet til 2011 um að byggja áfram bæði Boxter og Cayman sportbílana. Þetta var tilkynnt á tíu ára afmæli samsetningarverksmiðju Valmet í Uusikaupunki á suðausturströnd Finnlands. Uusikaupunki er eini staðurinn utan Þýskalands þar sem Porschebílar eru framleiddir.
Ákvörðun Porsche um að framlengja samstarfssamninginn við Valmet kemur var á óvart því að eftirspurn eftir Porsche bílum fer stöðugt vaxandi og Valmet verksmiðjan er talin ein sú besta í bílaiðnaðinum. Bandaríska stofnunin JD Power & Associates hefur æ ofan í æ rómað Boxter og Cayman frá Finnlandi fyrir gæði og vandaða samsetningu.
Framleiðsla á Porsche Boxter í Finnlandi hófst árið 1995 og framleiðsla á Cayman bættist við árið 2005. Alls hefur verksmiðjan byggt um 180 þúsund bíla. Þar starfa nú 782 starfsmenn og byggja þeir um 100 bíla á dag. Flestir hlutar bílanna, þar á meðal vélarnar eru búnir til í Zuffenhausen við Stuttgart í Þýskalandi.
Bílaframleiðsla í Valmet hófst árið 1968 með framleiðslu á Saab 95. Árið 2003 sleit Saab samstarfinu en þá hafði Valmet byggt alls byggt 738.135 Saab bíla sem voru orðlagðir fyrir vandaða smíð. Valmet reisti svo þessa nýju verksmiðju í Uusikaupunki og tók í notkun árið 1997. Samhliða framleiðsla á Porsche og Saab hjá Valmet stóð því í átta ár.