Porsche setur ný hagnaðarmet
Porsche Carrera Cabrio 2006
Nýjar og dýrari gerðir Porsche tryllitækja eins og t.d. hinn nýi 911 hafa ekki fælt kaupendur frá heldur þvert á móti. Salan hefur aukist um 15% undanfarna 10 mánuði miðað við sama tímabil í fyrra og allt útlit er fyrir að nýtt hagnaðarmet í sögu Porsche líti dagsins ljós þegar tölur síðasta reikningsárs liggja fyrir í júlí.
Í ársuppgjörinu mun þess sjá glöggt stað að seld var ein deild fyrirtækisins á reikningsárinu með drjúgum hagnaði. Talsvert af honum hefur að vísu farið í það að hanna og þróa nýja bílgerð; Porsche Panorama, sem áætlað er að komi á markað árið 2009.
Velta fyrirtækisins síðustu tíu mánuði hefur verið um sex milljarðar evra. Á síðasta reikningsári varð hagnaðurinn 782,5 milljónir evra og veltan 6,57 milljarðar evra. En Porsche bílar eru svo eftirsóttir að fyrirtækinu tókst að fá hreinan hagnað upp á 4 þúsund evrur af hverjum einasta framleidda bíl á fyrra helmingi reikningsársins sem þykir með talsverðum ólíkindum í bílaheiminum.
Árið í ár verður líklega ekki síðra því að nú hafa verið framleiddir alls 90 þúsund bílar á móti 88.379 í fyrra. Bloomberg greindi frá þessu.