Prius fær harðan keppinaut
Toyota sem í raun fann upp tvíorkubílinn, hefur síðan verið nánast einráð í framleiðslu og sölu á tvírokubílum sem knúðir eru áfram í sameiningu (og stundum sitt í hvoru lagi) af bensínvél og rafmótor gegn um stiglausa CVT sjálfskiptingu. Ýmsar tilraunir annarra, t.d. Honda, til að ná fótfestu með svipaðri tækni hafa til þessa reynst árangurslitlar. En nú ætlar Volkswagen að taka slaginn og er með sambærilegan tvinnbíl og Prius tilbúinn til fjöldaframleiðslu. Bíllinn er VW Jetta.
VW Jetta tvinnbíllinn var sýndur á bílasýningunni í Detroit í janúar sl. sem hugmyndarbíll, en nú stendur bíllinn fullgerður á sýningunni í Los Angeles sem er nýhafin. Fjöldaframleiðsla er þegar byrjuð og almenn sala hefst eftir helgi. Sala á Jetta tvinnbílnum hefst í Evrópu fljótlega upp úr næstu áramótum.
Tvíorkutæknin í VW Jetta er mjög svipuð þeirri sem er í Toyota Prius. Bensínhreyfillinn er 1,4 l TSI bensínvél með túrbínu og rafmótorinn er 20 kW (27 hö.). Vélarnar skila afli sínu saman eða rafmótorinn einn. Það fer eftir aðstæðum og aksturslagi í gegn um sjö gíra DSG gírkassa. Gírkassinn er þannig það eina tæknilega meginatriði sem skilur á milli Jetta og Prius.
Samkvæmt frétt frá Volkswagen þýðir búnaðurinn það að bensíneyðslan verður að meðaltali 20 prósent lægri en ef bíllinn væri bara knúinn bensínvélinni einni á hefðbundinn hátt. Reiknuð eyðsla samkvæmt bandarísku mæliaðferðinni er 54 mílur á galloninu eða sem svarar 5,2 lítrum á hundraðið. Geta verður þess að bandaríska eyðslumælingin er alls ekki samanburðarhæf við þá evrópsku. En vart sýnist bílnum vera afls vant því að viðbragðið 0-100 er sagt vera 9 sek.
Þegar Jetta er ekið á rafmótornum einum saman er drægi bílsins einungis fáeinir kílómetrar og hámarkshraðinn einungis um 70 km á klst. Raf-aksturshamurinn er þannig fyrst og fremst sniðinn að akstri innan borganna. En þegar fulls afls er þörf þarf vart að kvarta undan máttleysi því að á fullum afköstum beggja mótoranna er aflið 170 hö.
Litla en öfluga 1,4 l túrbínuvélin er vel þekkt í Evrópu. Hana er að finna í t.d. VW Polo, Golf og Passat. Þetta er hins vegar í fyrsta sinn sem hún kemur fram í Ameríkuútgáfu Volkswagenbíls. Volkswagen hefur lagt mikið í auglýsingaherferð til að sannfæra Bandaríkjamenn um það að svona lítil vél að rúmmáli geti skilað jafn miklu afli og vinnslu og hinar mun stærri vélar sem Bandaríkjamenn hafa vanist alla tíð. 1,4 l TSI vélin er jafn öflug en ennþá vinnslubetri (hærra snúningsvægi) en 2,5 lítra vélin sem hingað til hefur verið staðalvélin í Jettabílum í Bandaríkjunum.
Rafhlöðurnar í nýju tvinn-Jettunni eru líþíum-jónarafhlöður – samstæða 60 rafhlaða sem hver um sig er 5 amperstundir. Samanlagt afkastar samstæðan 1,1 kílóWattstund. Hún er staðsett aftan við aftursætið og tekur ekkert rými upp inni í bílnum. Þyngd samstæðunnar er 38,5 kíló.
En þrátt fyrir viðbótarþyngd rafhlaðanna og rafmótorsins og búnaðar honum tengdum þá er tvinn-Jettan einungis 100 kílóum þyngri en hin hefðbundna, eða rétt rúm 1.500 kg. Tvinn-Jettan er mjög svipuð í útliti og hefðbundna gerðin, en þó auðþekkt á breytingum sem gerðar hafa verið til að draga úr loftmótstöðu um ca. 10%. Tvíorkubúnaðurinn vinnur þannig í stórum dráttum að svo fremi sem nóg rafmagn er á rafhlöðusamstæðunni slokknar sjálfvirkt á bensínvélinni þegar hraðinn fer niður fyrir 60 km á klst. En hægt er líka að drepa á henni handvirkt með takka við gírstöngina (gírveljarann). Þá fer bíllinn í rafrænan akstursham og þannig má aka á allt að 70 km hraða.
Á jöfnum allt að 135 km hraða á vegum úti slökknar sjálfvirkt á bensínvélinni þegar slakað er á eldsneytisgjöfinni. Þá sparast bensín og bíllinn viðheldur jöfnum hraða á rafmótornum einum. En þegar lækka tekur á geymasamstæðunni fer bensínvélin í gang til þess að hlaða straumi á geymana.