Rafbílar í vetrarakstri, stór könnun NAF 2023
Vetrarafbílarannsókn Félags norskra bifreiðaeigenda, NAF og Motor félagstímaritsins hófst í Osló þriðjudaginn 1. febrúar 2023. FÍB er aðili að rannsókninni og aðstoðaði við framkvæmdina. NAF rafbílarannsóknin er sú viðamesta í heimunum og var þetta í fjórða sinn sem hún er framkvæmd. Gerðar er vandaðar prófanir á drægni og úttektir á rafbílum bæði að sumar- og vetrarlagi.
Að rannsókninni koma fagmenn hver á sínu sviði og ríkir eftirvænting eftir niðurstöðu hennar hjá bílaáhugamönnum sem og bílaframleiðendum enda Norðmenn í fremstu röð í heiminum þegar kemur að rafbílavæðingu. Í prófuninni var raundrægi rafbíla í vetraraðstæðum skoðað og enn fremur hvernig bílarnir bregðast við þegar rafhlaðan er að tæmast. Enginn af þeim 29 rafbílum í vetrarprófuninni, sem eru nýir á markaðnum, var nálægt WLPT staðlinum um orkunotkun bifreiða og raundrægni í akstri.
Heldur kaldara í ár en í fyrra
Aðstæður í þessari nýju vetrarkönnun voru í stórum dráttum þær að veðurfar og færð var breytilegt, yfirborð veganna var ýmist autt, þurrt, blautt og ís á köflum Hitafar á meðan prófunum stóð var frá frostmarki niður í allt að 19 gráðu frost á fjöllum. Í könnuninni í fyrra var hitinn á bilinu 0 til mínus tíu stig, en í ár var heldur kaldara.
Prófanir fóru fram bæði á láglendi og á fjallvegum. Tveir voru í hverjum bíl, ökumaður og aðstoðarökumaður. Marianne Borgen borgarstjóri Oslóborgar og Stig Skjöstad framkvæmdastjóri NAF ræstu keppendur frá Aker Brygge í miðborg Oslóar og þaðan var bílunum ekið tæpa 250 km á þjóðvegum í norður að Frya. Þaðan var ekið áfram rúmlega 230 km hring um fjallvegi þar sem hver einstakur bíll þurfti að halda áfram þar til bíllinn varð rafmagnslaus. Þá fyrst var kílómetrafjöldi skráður. Eftir þetta þurftu prófunarteymin 29 að bíða eftir að vegaaðstoð NAF kæmi á staðinn og flytti orkulaus ökutækin að prófunar- og hleðslustað. Veðrið var að mestu bjart og lítill vindur. Fyrsti kafli leiðarinnar var þéttbýlisakstur í Osló og þaðan mest á þjóðvegum með hámarkshraða frá 60 km. á klst. upp í 110 km hraða. Á síðasta kaflanum var mikill stígandi á miklar brekkur upp í tæplega 1000 metra hæð á fjallvegi.
Bílarnir hófu prófanir með fullhlaðna rafhlöðu, án forhitunar. Bílategundir geta haft mismunandi prófunargildi samkvæmt WLTP staðlinum, allt eftir búnaðarstigi og hjólastærð. Miðað var við það WLTP gildi sem söluumboðið eða framleiðandinn gaf upp á bílana sem tók þátt í prófuninni.
Að meðaltali var um 25% samdráttur í akstursdrægni
Eins og vænta mátti að vetrarlagi náðu rafhlöður bílanna 29 ekki sömu nýtni og afköstum eins og í sumarakstri. Orkunotkunin var að meðaltali yfir 10 prósent meiri en uppgefin eyðsla samkvæmt WLTP staðlinum. Bílarnir sem tóku þátt í könnuninni voru að meðaltali að tapa um 25% af akstursdrægninni á akstursleiðinni. Af þátttökubílunum voru 12 kínverskir frá 7 mismunandi framleiðendum. Sumir þessara bíla hafa ekki áður verið í boði á evrópskum markaði. Árangur þeirra var misjafn. Maxus Euniq6 náði mjög góðum árangri en á hinum endanum var Hongqi E-HS9 með næst versta hlutfallið í drægni.
Met slegið í akstursdrægni
Met var slegið varðandi hversu langt rafbíll ekur að vetrarlagi í drægnisprófi. Það var Tesla Model S sem ók 530 kílómetra í köldu vetrarveðri. Það er 16.40% frávik frá drægni samkvæmt WLTP sem gefur 634 km.
Þótt Tesla S hafi ekið lengst þá var það ekki sá bíll sem komst næst uppgefnu drægi (WLTP). Það var mun ódýrari bíll sem gerði það, nefnilega Maxus Euniq6, með 10,45% frávik. Bíllinn fór 317 km en uppgefið drægi er 354 km.
Þetta er fjórða vetrarprófið sem NAF og Motor standa fyrir. Sagan sýnir frávik á bilinu fjögur til yfir 35%. Í prófun þessa árs voru fjórir bílar sem stóðu sig verr en það sem hingað til hefur verið mesta frávikið í drægni. Mercedes EQE 300, Skoda Enyaq Coupe RS, Hongqi e-HS9 og Toyota bZ4x 2WD voru með meira en 33 prósent styttri drægni í drægniprófunum. Toyota dró bZ4x 4WD bílinn sinn út úr keppninni nokkrum dögum áður en prófanir hófust en héldu eindrifsbílnum inni. BZ4X var með lökustu hlutfalls niðurstöðuna af öllum þátttökubílunum eða -35,79%.
Á meðfylgjandi töflu eru niðurstöður, yfirlit yfir bílana í prófinu, með uppgefnu WLTP staðalgildi, stöðvunartölum og frávikum frá WLTP. Orkueyðslutölur eru kWh / 100 km. Hægt er að smella á myndina fyrir betri gæði.