Prófunarlota stendur yfir hjá EuroNCAP

The image “http://www.fib.is/myndir/Euroncap.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Fjöldi bíla, stórra og smárra, dýrra og ódýrra eru nú í árekstrarprófunum hjá EuroNCAP og verða niðurstöður birtar í lok júnímánaðar á fréttamannafundi í Stokkhólmi.
Búast má við að þá liggi fyrir niðurstöður um 11 bíla. Þeir eru
BMW 3, Citroën C1 eða Toyota Aygo, Dacia Logan, Fiat Stilo, Mazda 5, Mazda 6, Mercedes-Benz A, Opel Zafira, Renault Clio, Smart Forfour og VW Passat.
Úrslitanna er beðið með talsverðri eftirvæntingu að þessu sinni þar sem bílarnir eru ýmist hreinar nýjungar og/eða öryggi þeirra hefur verið dregið í efa. Síðarnefnda atriðið á vissulega við um hinn nýja og ódýra smábíl Renault/Dacia Logan og líklegt er að niðurstaðan muni miklu ráða um gengi hans í V. Evrópu.  
Fiat Stilo er talsvert algengur í Evrópulöndum þótt hér sé hann mjög sjaldgæfur bíll. Stilo hefur verið á markaði í nokkur ár, en fyrst nú verður gefið út hversu öruggur hann er. Þetta er reyndar í annað sinn sem Fiat Stilo er árekstursprófaður hjá EuroCAP, en hann var tekinn á teppið undir lok síðasta árs en niðurstöðurnar voru þá ekki birtar einhverra hluta vegna. Sterkur orðrómur er um að hann hafi komið illa út. Því er niðurstöðu þessarar annarrar lotu Fiat Stilo í árekstrarprófun EuroNCAP beðið með verulegri eftirvæntingu þar sem Stilo hefur náð fótfestu.
Litli nýi smábíllinn sem seldur verður undir merkjum Toyota, Peugeot og Citroën verður hins vegar með allt á hreinu og prófunin afstaðin þegar salan hefst í Evrópu. Citroën C1 var upphaflega á listanum í þeirri prófunarlotu sem senn lýkur en Toyota er sögð hafa keypt sig inn í röðina með Aygo, sem reyndar er nánast sami bíll, og því verður það líklega Toyotan sem verður skrifuð fyrir þeim EuroNCAP-stjörnum sem bíllinn fær. Ólíklegt þykir að hvorki EuroNCAP né Citroën / Peugeot muni kosta endurtekna prófun á nánast sama bílnum aftur.
Hjá EuroNCAP hafa þær upplýsingar fengist að niðurstöður verði birtar um þá 11 bíla sem taldir eru upp hér að framan, en vera kunni að sá 12 fljóti með – Chrysler Voyager. Búið var að árekstursprófa þennan bíl en niðurstöðurnar voru ekki birtar, annaðhvort vegna þess að niðurstöður voru óviðunandi eða að galli hafi fundist í prófunareintakinu. Allavega er nú verið að endurtaka prófunina á Voyager.
The image “http://www.fib.is/myndir/FiatStiloAbarth.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Fiat Stilo er meðal þeirra bíla sem verið er að árekstursprófa nú.