PSA leitar fótfestu í Bandaríkjunum
PSA Group (Peugeot – Citroen) hyggst ná fótfestu á bandaríska bílamarkaðinum. Forstjórinn, Carlos Tavares ætlar að vinna að því samkvæmt tíu ára áætlun. Fyrsta skref hennar er að koma upp bílasamnýtingarfélögum og skyldri samgönguþjónustu í Bandaríkjunum. Gangi það upp yrði næsta skref að hefja almenna sölu bíla. Bílar frá PSA hafa ekki verið í boði í Bandaríkjunum um langt árabil.
Tavares sagði á fundi með fjármálavitringum í síðustu viku að ef bílasamnýtingarhugmyndin gengur upp þá geti PSA í fyllingu tímans byrjað að selja bíla í samvinnu við innlenda aðila á hverjum stað eða markaðssvæði í Bandaríkjunum. Nú þegar væri búið að skipa í starfshóp sem byrjaður er að rannsaka viðhorf og hegðun bílanotenda og bílakaupenda sem og laga- og reglugerðaumhverfið.
Hann sagði að miðað væri við að hefja rekstur bílasamlaganna 2017 og hugsanlega í samvinnu við franska fyrirtækið Bollore sem er reynslumikið í slíkum rekstri. Bollore hefur um árabil rekið bílasamlög í París, Lyon og Bordeaux í Frakklandi og í London undir vörumerkinu Autolib. Bollore framleiðir sjálft bæði rafhlöður og þá rafbíla sem Autolib notar. Bollore starfar einnig með bandarísku fyrirtæki sem heitir BlueIndy og rekur bílasamnýtingarfélag í Indianapolis og leggur því til rafbíla. PSA Group hefur nú þegar samið við Bollore um að framleiða fjögurra sæta opinn rafbíl sem hannaður er af Bollore. Þessi bíll, sem nefnist Bluesummer, hefur um 200 km drægi á rafhleðslunni.
Tavares sagði síðan á þessum fyrrnefnda fundi með fjármálaspekingunum að skref númer tvö í sókn PSA í Bandaríkjunum yrði að –þróa samgöngulausnir sem byggðar verða á PSA bílum (Peugeot og Citroen). Þessar lausnir fælust í bæði bílasamnýtingarfélögum og langtímaleigufyrirtækjum, báðum alfarið í eigu PSA.