Ráðherra segir óhjákvæmilegt að taka upp einhverskonar veggjöld
Líkt og vegfarendur margir hafa tekið eftir þá hefur mikið verið að gera í viðhaldi vega í sumar. Það hefur þurft að loka vegum og fólk hefur tafist um stund vegna stórra sem smárra verka. Þessi verk eru nauðsynleg en í sumar hefur verið unnið fyrir meira fé en mörg undanfarin ár. Þetta kemur fram á heimasíðu Vegagerðarinnar.
Síðan hefur rigningatíð fyrri hluta sumars leitt til þess að enn meira hefur verið umleikis nú síðsumars. Nefna má tvö stórverkefni sem er malbikun á Hellisheiði og lagning ný slitlags á Ölfusárbrú.
Í Ölfusárbrú, sem þurfti að loka í nokkra daga, fóru 25 m3 af hástyrkleika steypu þar sem 600 kg af sementi fóru í hvern m3, Alls komu um 8 mismunandi aðilar að verkinu og m.a. þurfti að taka niður handrið og gera klárt fyrir mögulegan neyðarakstur yfir brúna.
Eins og áður sagði verður aldrei meira fé varið til viðhalds í vegakerfinu en í ár verða settir 12 milljarðar í þennan málaflokk. Mikið hefur verið unnið í sumar við lagfæringu á vegum sem voru orðnir slæmir vegna lélegs viðhalds síðustu ára og eins vegna slæms veðurfars síðasta vetur. Þetta kom m.a. í viðtali við Sigurð Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, í viðtali í Býtinu á Bylgjunni.
Í viðtalinu við ráðherra kom fram að öll heildargjaldtaka sé í skoðun en aðaltekjuöflunin er af eldsneytisgjöldum. Starfshópur er að störfum til að útfæra leiðir til tekjuöflunar og sagði ráðherra ekki útiloka að taka upp veggjöld í einhverskonar mynd. Öll þessi mál væri til skoðunar.