Ráðist í endurgerð hraðahindrana í borginni í sumar
Borgarráð Reykjavíkur hefur samþykkt að ráðast í endurgerð hraðahindrana í borginni á árinu 2025. Verkefnið verður boðið út í tveimur áföngum og er áætlað að framkvæmdir hefjist í maí og ljúki í september. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Endurgerðin nær til hraðahindrana á nokkrum stöðum í borginni, þar á meðal í Laugardal, Háaleitis- og Bústaðahverfi, Grafarvogi og Breiðholti. Verkefnið felur í sér jarðvinnu, malbikun, uppsetningu umferðarmerkja og yfirborðsmerkinga, auk lagningar granítkantsteina og upprampa.
Áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdirnar er 200 milljónir króna. Markmiðið með verkefninu er að bæta öryggi og aðgengi vegfarenda.
Á árinu 2025 verða endurgerðar eftirtaldar hraðahindranir:
- Við Álfheima í Laugardal
- Við Skeiðarvog í Laugardal
- Við Listabraut í Háaleitis- og Bústaðahverfi
- Við Langarima í Grafarvogi
- Í Norðurfelli við Fannarfell
- Í Norðurfelli við Eddufell
- Í Suðurhólum
- Í Austurbergi við Suðurhóla
- Í Vesturhólum við Arahóla
Flestir geta verið sammála um gagnsemi hraðahindrana. Markmið þeirra er að draga úr hraða, bæta öryggi og þá alveg sérstaklega í íbúagötum þar sem börn og aðrir gangandi eru á ferð. Ásigkomulag margra þeirra er slæmt, þær eru skakkar, skældar og holur hafa myndast í þeim eftir veturinn. Því er afar brýnt að ráðist verði í lagfæringar, þær skemmi ekki heldur sinni hlutverki sínu eins og ætlast er til.