Rafbílar á rafbíla ofan í Frankfurt
Rafmagnsbílar, ýmist hreinir rafbílar eða tvíorkubílar, eru mjög áberandi á bílasýningunni í Frankfurt sem nú stendur yfir. Meira að segja Volvo hefur nú bæst í hópinn og sýnir sinn minnsta bíl, Volvo C30 sem hreinan rafbíl. Sem rafbíll er hann að vísu enn á hugmyndar- og tilraunastigi og til í einungis fáum tilrauna- og sýningareintökum en gæti allt eins farið í fjöldaframleiðslu og á almennan markað 2012. Fljótt á litið er rafmagnsútgáfa C30 eins og sá hefðbundni hvað varðar pláss, þægindi og öryggi.
„Volvo C30 er fyrsti rafknúni Volvo tilraunabíllinn. Hann er mjög heppilegur bíll fyrir borgarumferð, tiltölulega lítill og léttbyggður. Hann hentar því vel sem rafbíll enda eru rafbílar fyrst og fremst hugsaðir til nota í daglegu snatti í borgum og þéttbýli,“ segir Lennart Stegland framkvæmdastjóri sérbíladeildar Volvo.
Hversvegna rafmagn?
Rafgeymunum er komið fyrir þar sem bensíngeymirinn var og í miðjustokknum í botni bílsins. |
Rafmagn er heppilegur orkugjafi fyrir bíla. Orkunýting rafbílamótora er mjög góð og margfalt betri en orkunýting hefðbundinna bílvéla og Stegland segir augljóst að rafbílum muni fjölga í takti við hækkandi olíuverð og hertar kröfur um CO2 losun. Volvo C30 BEV rafbíllinn er með líþíum jónarafhlöður sem fullhlaðnar duga til 150 km aksturs. Hleðslutími er um átta klst. frá venjulegum 230 volta 16 ampera heimilistengli. Miðað við flestalla bílanotkun í borgum og þéttbýli er þetta fyllilega nóg. Og sé rafmagnið á bílinn framleitt með endurnýjanlegri orku (vatns-,vind-,sólar-) er ekki um neinn CO2 útblástur að ræða frá notkun bílsins.
Í Volvo C30 BEV er rafmótornum komið fyrir undir húddinu eins og í hefðbundnum Volvo C30. Rafgeymarnir eru svo staðsettir þar sem eldsneytistankurinn var og í miðjustokknum í botni bílsins.