Rafbílar framtíðin?
- Við stefnum að því að framleiða í framtíðinni rafbíla og bíla með mjög nýtnum brunahreyflum- segir Martin Winterkorn, einn af æðstu stjórnendum VW samsteypunnar við fjölmiðla. Hann sagði ennfremur að rafvæðing drifbúnaðar í bíla sé framtíðin en til að svo geti orðið verði rafgeymar að vera miklu öflugri en hingað til hafa þekkst í bílum. Bílarnir verði að uppfylla kröfur og væntingar notendanna. Geri þeir það ekki er öll fyrirhöfnin unnin fyrir gýg. Þessvegna sé samningurinn við Sanyo mjög þýðingarmikill fyrir Volkswagen. Hann sagði að fyrstu bílarnir ættaðir úr samstarfi VW og Sanyo kæmu á markað 2010.
Þeir rafbílar sem fram til þessa hafa verið í notkun eru með hefðbundnum blý/sýrugeymum sem eru níðþungir, hafa takmarkaðan líftíma og geta í fæstum tilfellum geymt meiri orku í sér en nægir til að aka 100 km á hleðslunni – í besta falli. Síðan tekur fleiri klukkutíma, jafnvel hálfan sólarhring að endurhlaða geymana.
Af þessum ástæðum hafa rafbílar alls ekki verið samkeppnishæfir við bíla sem knúnir eru bensíni, olíu eða gasi. Undanfarin ár hafa fjölmargir aðilar hins vegar unnið að þróun nýrra rafgeyma sem bæði eru miklu léttari en blýgeymarnir gömlu og geyma miklu meiri orku í sér en þeir. Með síhækkandi eldsneytisverði hefur komist mikill gangur í þessar rannsóknir og tilraunir og nú loks eru fram komnir geymar sem eru komnir ansi nálægt því að gera rafbíla samkeppnisfæra við venjulega bíla. Með fjöldaframleiðslu á þessum geymum mun verðið lækka og þess er þegar tekið að gæta.
Nýju rafgeymarnir eru svokallaðir líþíum-jóna geymar svipaðir rafhlöðum í farsímum og fartölvum. Þessir geymar eru þegar komnir fram í bílum eins og t.d. sportbílnum Tesla sem byggður er í Kaliforníuríki. Strax á næsta ári kemur tvinnútgáfa lúxusbílsins Mercedes E í almenna sölu en bíllinn er einmitt með með líþíum-jóna rafhlöðum. Bíllinn er fyrst og fremst rafbíll sem stungið er í samband við straum. Þegar lækka tekur á geymunum fer dísilvél bílsins í gang og framleiðir rafmagn inn á geymana.
Flestir stærstu bílaframleiðendurnir í Evrópu stefna nú á framleiðslu ýmist hreinna rafbíla og tengiltvinnbíla eins og E-Benzans sem hér hefur verið nefndur. Renault/Nissan samsteypan á reyndar rafeindafyrirtækið Samsung í Kóreu sem einmitt hefur alla burði til að framleiða líþíum-jónarafhlöður í stórum stíl. Sú stórframleiðsla er reyndar í þann mund að hefjast því að ekki er langt síðan Renault gerði fjórhliða samning við samtök sem nefnast Better Place, dönsk stjórnvöld og danska orkufyrirtækið DONG um að útvega dönskum almenningi rafbíla frá árinum 2011. Bílarnir eiga að vera samkeppnisfærir við venjulega bensín-, dísil- og gasknúna bíla í notagildi, verði og reksturskostnaði.