Rafbílarnir skilja eftir sig grynnsta vistsporið

International Council on Clean Transportation eða Alþjóðaráðið um hreinar samgöngur, ICCT, eru bandarísk sjálfseignasamtök með höfuðstöðvar í Washington D.C. og skrifstofur í San Francisco, Sao Paulo, Peking og Berlín.

ICCT vakti heimsathygli 2014 þegar samtökin skilðuðu af sér rannsóknum um mengun Volkswagen dísilbíla til bandarískra umhverfisyfirvalda.  Rannsóknin sem unnin var af vísindamönnum í Vestur Virginíu háskólanum (West Virginia University) fyrir ICCT markaði upphaf ,,Dieselgate“ málsins sem er eitt stærsta hneyksli bílasögunnar.

ICCT segir: -Hætt verði að selja nýja bensín-, dísil- og blendingsbíla 2030 til 2035.

Í rannsókn ICCT var farið í vistferilsgreiningu á nýjum bílum af árgerð 2021.  Rannsakaðir voru brunahreyfils-, raf-, tengiltvinn-, tvinn- og vetnisbílar í Evrópu, Kína, Bandaríkjunum og Indlandi en raforkuframleiðsa er mjög mismunandi á þessum svæðum. 

Óháð hlutfalli endurnýjanlegrar orku þá er niðurstaðan sú sama

Rafbílar losa minni koltvísýring samanborið við bensínknúna bíla, líka þeir sem nota óendurnýjanlega raforku. Á Indlandi þar sem kol eru mikið notuð í raforkuframleiðslu er útlosun rafbíla frá 19 til 34% minni en losun bensínknúinna bíla.

Kolefnissporin af framleiðslu rafbíla stærri - en jafnast út á einu ári

Hér er skýrslan í heild sinni á heimasíðu ICCT

Mismunandi markmið

Útreikningarnir sem gerðir eru fyrir allan líftíma bílsins, frá framleiðslu til úreldingar fela í sér losun sem tengist framleiðslu, notkun og viðhaldi bílsins, framleiðslu rafgeyma og framleiðslu orkugjafa, eldsneytis eða rafmagns sem bílarnir nota.

 samanb. allra svæða

    Útreikningar ICCT miðast við mismunandi driflínur og orkugjafa, eins og bensín, dísilolíu, jarðgas, eldsneyti unnið með rafgreiningu, lífrænt eldsneyti, vetni og rafmagn. Útreikningarnir fyrir landsvæðin fjögur, Evrópu; Kína, Bandaríkin og Indland, taka mið af aðstæðum á hverju svæði varðandi eldsneytis- og raforkunotkun út frá raun-akstursskilyrðum.

    Að auki hafa samsvarandi útreikningar verið áætlaðir fyrir bílaflotann í hverju hinna fjögurra svæða árið 2030, byggt á ýmsum pólitískum markmiðum og stefnumörkun yfirvalda í þessum heimshlutum. Um 70 prósent af sölu nýrra bíla á jörðinn er á þessum fjórum svæðum.

    Markmið Parísarsamkomulagsins um að hemja hlýnun jarðar undir 2 gráðum krefst þess að losun koltvísýrings frá bílasamgöngum fyrir árið 2050 minnki verulega miðað við núverandi ástand.    

    Til að takmarka hlýnun við 1,5 gráður áætlar ICCT að draga verði úr koltvísýringslosun frá flutningum um að minnsta kosti 80 prósent - og mest af þessu verður að koma frá bifreiðum.

Meginatriðin þau sömu

-Að teknu tilliti til þess vaxtar sem vænst er að muni eiga sér stað í samgöngugeiranum þá þýðir þetta að kolefnislosun pr. bíl verður að minnka umtalsvert.  En það mun ekki gerast ef leyfð verður aukin kolefnislosun af sjálfri framleiðslu bílanna, segir í skýrslu ICCT. -Þess vegna er það alger frágangssök að þeir sem með ákvörðunarvaldið fara í heiminum þekki og skilji þá tækni sem dugar til að minnka losunina, ekki bara þá losun sem kemur út um púströr bílanna, heldur frá allri ,,ævi“ hans, frá framleiðslu, notkun og að lokum eyðingu og endurvinnslu, segir ICCT.

    Losunartölurnar eru nokkuð mismunandi milli svæðanna fjögurra, bæði vegna þess að bílafloti svæðanna sem og orkan sem knýr þá er af mismunandi tagi. Meginatriðin eru þó hin sömu:

    *-Kolefnislosun brunahreyfilsbíla allt ,,lífshlaupið“ (frá framleiðslu til eyðingar og endurvinnslu) er miklu meiri en frá rafbílum. Losunarmagn frá vetnisknúnum bílum ræðst algerlega af því hvernig vetnið er framleitt.

Evrópa ólík innbyrðis

Um losunartölurnar í Evrópuríkjum segir ICCT að aðeins með því að fjölga rafmagns- og vetnisbílum sé mögulegt að draga verulega mikið úr kolefnislosun frá umferð. Hvað varðar bifreiðar með brunahreyfla - bæði dísil-, bensín- og tvinnbíla (tvíorkubíla) og tengiltvinnbíla er talið að það verði ekki mögulegt að ná fram frekari samdrætti í losun þeirra en þegar er orðinn.

    Heildar lífsferilslosun nýjustu rafbíla sem nýskráðir eru 2021 er 63-69 prósentum lægri en hjá sambærilegum bensínbílum. Hlutfall endurnýjanlegrar orku hækkar stöðugt og þegar það hefur náð markmiðum ársins 2030 verður lífsferilslosun raf- og vetnisbílanna 78-81 prósent lægri en lífsferilslosun bensínbílanna. Munurinn á raf-/vetnisbílunum og tvinnbílunum verður mun minni, eða einungis 25-31 prósent lægri að mati ICCT. Reiknað er með því að losun tengiltvinnbíla í jeppaflokkunnum (SUV og  Crossover) sé nú um 25-31 prósenti minni en frá sambærilegum bensínbílum. Með auknu drægi þessara bíla á rafmagni er þess vænst að verulega dragi í sundur með þeim og að lífsferilslosun tvinnbílanna verði árið 2030 verði kominn í 40 prósent af losun tilsvarandi bensínbíla.

    Hvað varðar tvinnbílana sem Toyota hefur einkum lagt sig eftir að framleiða, þá hefur losun þeirra í Evrópu lengi verið í kring um 20 prósend minni en hjá tilsvarandi bensínbílum. Þetta hlutfall er þó mjög breytilegt eftir ríkjum og fer eftir því hvernig raforkan er framleidd, hversu stór hlutur kola, olíu, gass, vind- og vatnsorku er í löndunum. Orkubúskapur ríkja er nefnilega mjög mismunandi. Sem dæmi má nefna er að lífsferilslosun rafbíla í Þýskalandi er tvöföld á við það sem hún er í Frakklandi.

,,Kolamokstur“

Í Bandaríkjunum koma rafbílarnir líka best út hvað varðar lífsferilslosun kolefnis með 56-68 prósent minni losun CO2 en tilsvarandi bensínbílar. Í Bandaríkjunum leitast fólk við að aka sem allra lengst á rafmagni á tengiltvinnbílum sem hefur þau áhrif að þessir bílar sýna þar eilítið betri losunarniðurstöður en á hinum rannsóknasvæðunum. Tvinnbílarnir eru með 35-40 prósent lægri CO2 losun en bensínbílarnir en 43-73 prósentustigum verri en al-rafmögnuðu bílarnir.

    Í Kína hins vegar er kolabrennsla til rafmagnsframleiðslu svo mikil að munurinn á losun rafmagns- og bensínbíla er minni en í vestrænu löndunum. Munurinn á rafbílum og bensínbílum eins og staðan er í  dag, er þar 34-46 prósent en verður líklega 46-67 prósent árið 2030 milli hreinna rafbíla og bensínbíla - rafbílunum í hag.

   Indland er í dag fimmti stærsti bílamarkaður heims og er ört stækkandi. Bílaflotinn þar er hins vegar mjög ólíkur flota hinna rannsóknasvæðanna. Munurinn á kolefnislosun rafbíla og bensínbíla reiknast vera þar á bilinu 19 til 45 prósent.