Rafbílasala í miklum vexti víða um heim
Víða um heim hefur rafbílasala aukist verulega á fyrrilhluta ársins. Einn af fimm nýjum bílum í Evrópu í júní var raftengjanlegur og þar af var helmingurinn hreinir rafbílar.
Í júní voru nýskráðir 235.000 tengilrafbílar í Kína sem 15% markaðshlutdeild og af þeim voru 188.000 hreinir rafbílar.
Rafbílamarkaðurinn í Evrópu vex hratt og í júní voru skráðir 237.000 raf- og tengiltvinnbílar. Markaðshluti tengilrafbíla var 19% og hreinna rafbíla 10%. Það sem af er 2021 er búið að nýskrá og selja yfir eina milljón raftengjanlega bíla í Evrópu.
Í Noregi var enn eitt metið sett í júní en þá náðu raftengjanlegir bílar 85% markaðshlutdeild en á bak við það eru 17.350 nýskráningar. Sem fyrr leiða Norðmenn rafbílasöluna í heiminum miðað við höfðatölu íbúa.
Búið var að nýskrá um 6,5 milljón bíla í Evrópu fyrstu sex mánuðina 2021. Á þessu tímabili hefur bílasala í Evrópu aukist um 27% samanborið við sama tíma 2020 samkvæmt upplýsingum frá ACEA, samtökum evrópskra bílaframleiðenda. Þrátt fyrir góðan vöxt í sölu samanborið við 2020 þá er enn langt í land að ná nýskráningunum á fyrri helmingi 2019, fyrir kórónufaraldurinn, en þá voru seldir um 8,5 milljón bílar í Evrópu.
Líkt og fram kemur í töflunni hér undir þá er Tesla Model 3 var mest seldi rafbíllinn í Evrópu.
Þýskaland leiðir
Þýskaland er stærsti bílamarkaðurinn innan Evrópu. Þar var hlutdeild raftengjanlegra bíla í júní 23,6% og þar af 12.2% hreinir rafbílar. Ef þróunin heldur svona áfram þá gætu rafbílar farið yfir dísilbíla á þýska markaðnum seinna á árinu.
Líkt og í víðast í Evrópu er Tesla Model 3 mjög vinsæll í Þýskalandi og var í fyrsta sæti í júní en VW e-up! er með sölumetið yfir fyrri helming ársins.
Tesla Model 3 á toppnum
Í Frakklandi er Tesla vinsælasti rafbíllinn. Tesla Model 3 er áttundi vinsælasti bíllinn óháð orkugjöfum á fyrri helmingi ársins. Raftengjanlegri bílar í Frakklandi eru með 18,8 % markaðshlutfall og þar af eru hreinir rafbílar með 10,5 %.
Hlutfall raftengjanlegra bíla á breska markaðnum var 17,2% í júní og þar af 10,7% rafbílar.
Ísland
Það sem af er árinu eru flestir nýskráðir fólksbílar á Íslandi tengiltvinnbílar eða 24%. Rafbílar eru með 19,9% hlutdeild og tvinnbílar með 21,2% af markaðnum. Bensín- og dísilbílar eru samanlagt með tæplega 35% markaðshlutdeild.
Mest seldu rafbílar í Evrópu á fyrri helmingi 2021
Tegund og gerð Fjöldi skráninga
- Tesla Model 3 67.480
- VW ID.3 31.030
- Renault Zoe 30.752
- VW ID.4 24.886
- Hyundai Kona Electric 22.294
- Kia Niro EV 20.753
- Peugeot e-208 20.502
- Fiat 500e 19.229
- VW e-up! 18.013
- Nissan Leaf 16.365
Heimild: EV Volumes via CleanTechnica