Rafbílastraumur í áskrift
Rafbílafyrirtækið Better Place er um þessar mundir að hefja starfsemi í Danmörku eins og lofað var árið 2008 og greint var frá þá hér á fréttavef FÍB. Í lok síðustu viku var gefinn út verðlisti fyrir rafmagn á rafbíla og aðra þjónustu við þá, eins og rafhlöðuskipti um allt landið. Talsmenn Better Place í Danmörku og orkufyrirtækisins DONG segja að markmiðið sé það að koma af stað rafbílabyltingu í Danmörku og gera almenningi það bæði ódýrt og auðvelt að fara allra sinna ferða á rafbílum.
Þetta tiltekna rafbílaverkefni er samvinnuverkefni þriggja fyrirtækja, en auk þeirra tveggja sem nefnd hafa verið er það Renault sem leggur til sjálfa bílana. Fyrirtækin þrjú vinna síðan með sveitarfélögum og fyrirtækjum um uppsetningu á hleðslustöðvum og rafgeyma skiptistöðvum.
Áskriftargjöldin eru þrepaskipt eftir því hversu mikið er ekið yfir árið. Lægsta rafmagnsáskriftargjaldið er 1.500 dkr eða 32.400 ísl. kr. á mánuði en það miðast við 10 þúsund kílómetra árlegan akstur. Sérstakt kílómetragjald leggst síðan ofan á akstur umfram 10 þúsund kílómetrana. Hæsta áskriftargjaldið er svo 3.000 kr. en það miðast við 40 þúsund kílómetra ársakstur.
Áskriftafyrirkomulagið veitir aðgang að hleðslustöðvum hvar sem þær er að finna sem og rafhlöðuskiptum í geymaskiptistöðvunum. Þar getur fólk komið og lagt inn tómu rafhlöðurnar í bílnum og fengið nýhlaðnar í bílinn í þeirra stað. Þá er hægt að fá settan upp hleðslustaur við heimili sitt, en það kostar 10 þúsund dkr. Það er fast verð og óháð því hvaða áskriftarþrepi menn eru í. Samkvæmt því sem talsmenn Better Place segja, þá getur fólk lækkað heildar bílakostnað sinn um allt að 20 prósent með því að velja rafmagnsbíl í stað bensín- eða dísilbíls.
Gangsetning Better Place rafbílaverkefnisins er nátengd því að rafbíllinn Renault Fluence Z.E, fyrsti bíllinn með útskiptanlegri geymasamstæðu, er væntanlegur á almennan markað í Evrópu á síðari hluta ársins. Renault Fluence Z.E, sem sést á myndinni með þessari frétt, hefur þegar verið verðlagður í Danmörku og mun kosta 205.000 dkr eða 4.428 þúsund ísl. kr. með virðisaukaskatti. Engin aðflutningsgjöld leggjast á rafbíla í Danmörku.