Rafbíll árekstursprófaður í fyrsta sinn
Hið þýska systurfélag FÍB; ADAC er byrjað að árekstursprófa rafbíla kerfisbundið. Bílarnir eru prófaðir á nákvæmlega sama hátt og EuroNCAP árekstursprófar venjulega bíla. Fyrsti rafbíllinn, Mitsubishi i-Miev, hefur nú gengið í gegn um áreksturspróf ADAC og árangurinn er góður og jafnvel betri en reiknað var með. Á heimasíðu ADAC má sjá kvikmynd af prófuninni.
Nú er loks útlit fyrir að rafbílum fari verulega fjölgandi á næstu mánuðum og árum. Bæði hefur tækninni fleygt fram auk þess sem olíuverð fer hækkandi að öllu óbreyttu. En spurningin er því sú hvort rafbílar séu jafn öruggir og hefðbundnir bílar? Hvað gerist þegar árekstur verður? Springa geymarnir og vellur úr þeim sýra og alls kyns eiturefni? Og hvað með fullhlaðna geyma í árekstri. Verður skammhlaup og útleiðsla ef högg kemur á bílinn, rafgeymana og rafkerfin? Fá farþegar og björgunarfólk banvænt raflost? Við þessum spurningum þurfa svör að fást áður en fólk festi kaup á rafmagnsbíl.
Og nú er fyrsta svarið komið. ADAC lét i-Miev bíl rekast á járnklossann á 64 km hraða og eins var ekið aftan á bílinn. Niðurstaðan er sú að allir öryggisþættir sem tengjast háspennurafhlöðunum í bílnum er í ágætu lagi. Hvorki framaná-áreksturinn né aftanákeyrslan náðu að snerta rafgeymasamstæðuna, jafnvel ekki þótt rafmótorinn sem er í skottinu og knýr afturhjólin, þrykktist um 40 sm inn undir aftursætið.
Søren W. Rasmussen tæknilegur ritstjóri hjá FDM, systurfélagi FÍB í Danmörku segir það gleðilegt að vita að öryggið í þessum rafbíl sé ekki fyrir borð borið. Það sé mikilvægt að rafbílar séu ekki verri hvað varðar öryggi fólksins í þeim, en aðrir bílar og hversu merkileg og góð þessi nýja raftækni í bílum sé, þá megi aldrei gefa afslátt af öryggi fólks. Enda þótt Mitsubishi i-Miev hafi komið vel út úr árekstursprófinu sé samt nauðsynlegt að fylgjast vel með öryggisþáttum allra þeirra nýju rafbíla sem í augsýn eru og væntanlegir eru á almennan markað á næstu mánuðum.
Tveir Mitsubishi i-Miev bílar eru nú á skrá og í umferð á Íslandi. Bíllinn er þessa dagana að koma í almenna sölu í Danmörku undir þremur nöfnum; Mitsubishi i-Miev, Citroën C-Zero og Peugeot Ion.