Rafbremsur í bílana

http://www.fib.is/myndir/EWB-bill-litil.jpg

Þann 8. maí í fyrra var hér á fréttavef FÍB greint frá tilraunum og prófunum Siemens VDO á rafmagnshemlum í bíla sem hugsanlega myndu leysa vökvahemla og ABS kerfi af hólmi um 2010. Nú tæpu ári síðar hefur Continental eignast Siemens VDO Automotive og þar á meðal rafmagnshemlatæknina og einhver seinkun verður á að rafmagnsbremsur verði almennt í bílum í stað vökvahemlakerfis.

Vökvahemlakerfi eru talsvert fyrirferðarmikil, flókin og dýr auk þess að vera miklu seinvirkari en hreinræktaðar rafmagnsbremsur. Því þykir mörgum vélaverkfræðingnum það freistandi að gera þennan lífsnauðsynlega búnað einfaldari og jafnframt viðbragðsfljótari og betri og hreinar rafmagnsbremsur eru einfaldari og ekki þarf að leggja nein vökvarör þvers og kruss um bílinn og í stað flókins og dýrs ABS læsivarnarbúnaðar kemur miklu einfaldari og ódýrari búnaður sem er margfalt hraðvirkari.

Svokallaðar Sensotronic Brake Control bremsur komu fyrst fram árið 2001 í Mercedes Benz S línunni og árið eftir í E-línunni. Þetta kerfi var og er eins konar málamiðlun milli raf- og vökvakerfis og tæknin hefur trúlega ekki verið fullþróuð og –reynd því kerfið reyndist ekki sem skyldi. Svo fór að árið 2006 voru bílar með þessum hemlakerfum innkallaðir til að setja í þá hefðbundin vökvahemlakerfi. Þau vandamál sem upp komu í Mercedes bílunum urðu því ekki til að flýta þróuninni heldur fremur hið gagnstæða. Þá hefur heldur ekki flýtt fyrir að sum lönd hreinlega banna rafræn hemlakerfi.

Sjálfsagt af þeirri ástæðu leggur Continental nú áherslu á Mercedes-leiðina og vinnur nú að því að þróa hemlakerfi sem eru blendingur rafræns hemlakerfis og vökvakerfis en hefur lagt hreinræktaðar rafbremsurnar sem fylgdu með í kaupunum á Siemens VDO á hilluna í bili að minnsta kosti. Þetta blendingskerfi er mun hraðvirkara en hefðbundnu vökvakerfin en um leið nokkru ódýrara í framleiðslu og ísetningu í bílana á framleiðslufæribandinu.

Auk Continental eru íhlutaframleiðendurnir Bosch, TRW Automotive og Advics að þróa svipuð kerfi og gera tilraunir með þau og búast má við að þau taki að skjóta upp kollinum í nýjum bílum um og upp úr 2010.