Rafeindatækni til hjálpar þegar lagt er í þröngt stæði
Bosch hefur sett á markað nýjan rafeindabúnað sem hjálpar ökumönnum að leggja í þröng bílastæði án þess að nudda stuðara í næstu bíla eða hverskonar hindranir. Í frétt frá Bosch segir að kerfið verði auðveldlega sett í nánast hvaða bíl sem er og geri ökumönnum mögulegt að leggja skjótt og örugglega í þrengslum án þess að eiga á hættu að skemma eigin og annarra bíla og eignir.
Um það bil fimmti hver bíll sem rennur af færiböndum þýskra bílaverksmiðja er nú með svonefndum Park Pilot-búnaði frá Bosch. Nýi búnaðurinn sem Bosch er nú er að setja á markaðinn nefnist URF6. Hann er sagður mjög endurbættur „Park Pilot“ með öflugri, minni og léttari skynjurum en áður hafa tíðkast auk möguleika á að setja skynjara líka framan á bílinn. URF6 kerfið er sérstaklega hannað með það fyrir augum að auðvelt sé að setja það í bíla sem engan búnað hafa fyrir af þessu tagi.
URF6 kerfið er hugsað fyrir flesta fólksbíla, sendibíla og minni vörubíla. Skynjurunum er komið fyrir m.a. aftaná bílnum eins og almennt hefur verið hingað til en það er nýtt að geta komið tveimur til fjórum skynjurum einnig fyrir á framstuðaranum. Nýju skynjararnir greina auðveldlega smáhluti eins og t.d. grannar hríslur. Girðingavíra og slíkt, sem eldri skynjarar gerðu ekki.
Í frétt frá Bosch segir að ísenting búnaðarins sé mjög auðveld. Nákvæmar leiðbeiningar fylgi hvernig koma skuli skynjurum og sjónskjá fyrir og hvernig tengja skuli kerfið straumkerfi bílsins. Kerfið fáist ýmist með skynjurum fyrir afturstuðarann en einnig fyrir bæði aftur- og framstuðara. Kerfið er tengt við bakkljósið sem kviknar þegar bíll er settur í afturábakgír. Þá kviknar um leið á kerfinu sem svo slekkur á sér 20 sekúndum eftir að bíllinn hefur verið tekinn úr bakkgír.