Rafhlöðubruni þremur vikum eftir árekstrarpróf
Bandaríska umferðaröryggisstofnunin NHTSA rannsakar nú sérstaklega rafhlöðusamstæðuna í Chevrolet Volt. Forsaga þessarar rannsóknar er sú að hvorki meira né minna en þremur vikum eftir að stofnunin hafði árekstursprófað Chevrolet Volt bíl kviknaði í rafhlöðusamstæðu hans þar sem hann stóð á geymslusvæði prófunarstöðvarinnar.
Þessi undarlega atburðarás hefur fengið mikla fjölmiðlaathygli í Bandaríkjunum og einhverjir telja ástæðu til að óttast um öryggi sitt í bílnum. GM, framleiðandi bílsins, hefur svarað með langri fréttatilkynningu en þar er eigendum Volt bíla boðið upp á það að fá lánaðan annan bíl endurgjaldslaust þar til niðurstaða rannsóknar NHTSA liggur fyrir.
Árekstursprófið sem um ræðir fór annars á þá leið að bíllinn hlaut fimm stjörnu einkunn, eins og hann hefur reyndar líka fengið í árekstursprófi EuroNCAP. Bíllinn sem kviknaði í þremur vikum eftir að prófunin fór fram, hafði verið notaður til að prófa hliðarárekstursþol. Við það kom högg á rafhlöðuhólf bílsins sem eru í T-laga stokki í gólfi bílsins. Þremur vikum síðar virðist hafa orðið skammhlaup í rafhlöðunum.
Í þeim prófunum sem NHTSA hefur síðan framkvæmt á rafhlöðunum virðist sem við mjög sérstakar aðstæður geti orðið allt að 500 millisekúndna skammhlaup í þeim. Eftir það grípi öryggishugbúnaður inn og stöðvi skammhlaupið. NHTSA hefur í framhaldinu sent út spurningalista til eigenda –ekki bara Volt bíla, heldur allra rafbíla, og óskað svara um hvernig bílarnir hefðu hagað sér hingað til og hvort eitthvað sérstakt hefði komið upp í notkun þeirra óháð því hvort bílarnir hefði lent í óhöppum eða ekki.
Á þessari stundu hallast ýmsir að því að ástæða brunans dularfulla geti verið sú að rásir fyrir kælivökva hafi skemmst í árekstursprófinu umrædda og það hafi síðan leitt smám saman til þess að skammhlaup varð. Þetta er þó enn óstaðfest. Tæknimenn GM segja við bandarískt tæknitímarit, að bíllinn sem notaður var í hliðarárekstursprófinu hafi ekki verið forritaður rétt þar sem hann hafi verið tilraunaeintak. Allir sölubílar sem framleiddir hafa verið frá því í júlí sl. séu forritaðir þannig að eftir árekstur afhlaðist rafhlöðurnar sjálfvirkt þar til ekkert rafmagn fyrirfinnst á þeim. Tilraunabíllinn hafi ekki verið forritaður þannig.
Greinilegt er að GM ætlar ekki að sitja með hendur í skauti og leyfa ótta grípa um sig meðal almennings um að öryggi bílsins sé á einhvern hátt ábótavant. Byrjað er að hafa samband við alla eigendur Chevrolet Volt bíla bréflega þar sem þeim eru boðnir lánsbílar meðan beðið eftir niðurstöðu rannsóknar NHTSA. Þá hefur GM boðið fram sérfræðaðstoð við að setja öryggisstaðla fyrir rafhlöður í rafmagnsbílum almennt.
Hingað til hefur engin einasta kvörtun borist frá eigendum Volt um yfirhitun, bruna né neins konar truflanir og óeðlilegheit í rafhlöðunum.