Rafknúin ökutæki framtíðarlausn í stórborgum heimsins
Nissan hefur búið e-NV200, mest selda rafknúna sendibíl Evrópu, nýrri og öflugri 40kWh rafhlöðu sem hefur 60% meira drægi en eldri rafhlaðan og skilar hún bílnum um 300 km á hleðslunni miðað við nýja mælistaðalinn WLTP.
Rafhlaðan er jafnstór og eldri útgáfan og skerðist því flutningsrými sendibílsins ekki á nokkurn hátt. Von er á þessum bílum til landsins í byrjun ágúst og er fyrsta sendingin uppselt.
Nissan e-NV200 er framleiddur í verksmiðju fyrirtækisins í Barcelona og hafa tæplega fimm þúsund bílar með nýju rafhlöðunni verið pantaðir frá því í janúar. Sem stendur eru flestir kaupendanna í stórborgum Spánar og öðrum Evrópulöndum þar sem borgaryfirvöld eru farin að setja takmarkanir á umferð bensín- eða dísilknúinna fólks- og sendibíla í miðborgunum.
Gareth Dunsmore, yfirmaður rafbíla hjá Nissan Europe, segir engan vafa leika á því að í rafknúin ökutæki séu framtíðarlausnin í stórborgum heimsins enda hafi þau í för með sér stórbætt loftgæði þar sem bílaumferð sé mikil.
Sendibílar gegna mikilvægu hlutverki í þjónustu við fyrirtæki í miðborgunum, hvort sem er við veitingastaði, hótel eða aðra aðila segir Dunsmore. Nú þegar er e-NV200 mest seldi rafknúni sendibíllinn í Evrópu. Í heild eru um átján þúsund slíkir bílar í notkun á heimsvísu.